140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[17:15]
Horfa

Huld Aðalbjarnardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum. Við getum ábyggilega öll verið sammála um mikilvægi þeirrar þjónustu sem lögreglan veitir um allt land. Verkefni hennar eru fjölbreytt og oft og tíðum mjög erfið. Það er því mjög eðlilegt að skoða og meta faglega skipulag þeirrar þjónustu sem lögreglan veitir eins og ég tel að verið sé að gera hér.

Hér er verið að boða breytingar á skipulaginu þannig að lögregluumdæmunum er fækkað. Þegar svo viðamiklar breytingar eru boðaðar er mjög mikilvægt að skoða sem flestar hliðar þess máls. Þessar breytingar virðast aðallega snúa að landsbyggðinni, að þessum stóru, víðfeðmu landsvæðum okkar, og þá verðum við að hafa í huga bæði þjónustuna sem verið er veita og þá þjónustu sem þjónustuþegar eiga rétt á að fá.

Markmið breytinganna þurfa að liggja mjög ljós fyrir, hvort það borgar sig að fara í sameiningu en að þróa samvinnu milli lögregluembættanna enn frekar. Faglegu rökin þurfa að vera alveg skýr, hvernig og hvar og hver á að leysa verkefnin, hvernig verkefnin breytast. Fjárhagslegu rökin þurfa líka að vera alveg ljós, hvort þeim markmiðum verði náð. Í umsögnum frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að þau markmið séu ekki skýr en ég tel að þau verði rædd frekar við vinnslu frumvarpsins þannig að þau liggi alveg ljós fyrir.

Eins og ég sagði áðan þarf að meta þetta út frá þjónustunni sem lögreglan veitir og út frá þjónustuþegum um land allt, bæði í byggð og í óbyggðum. Við vitum vel að á sumrin fara ferðamenn um stór landsvæði í óbyggðum og þarf að huga vel að stöðum sem eru mjög fjölmennir á þeim árstíma, til dæmis Kverkfjöllum.

Áður en frumvarpið verður afgreitt sem lög frá Alþingi, sem verður að mér skilst í haust og ég fagna því, treysti ég því að farið verði vel yfir það og að gefinn verði tími til að bæði þjónustuþegar og þeir sem vinna við þjónustuna fái ráðrúm til að fara yfir frumvarpið og gefa umsagnir um það. Það þarf að liggja ljóst fyrir hverjar breytingarnar verða. Hvernig verða þær? Hvernig ætla menn að taka á þeim? Það þarf líka að liggja ljóst fyrir hvort einhverjir þjónustuþegar um landið verði fyrir þjónustuskerðingu og hvernig menn ætla að mæta því? Ég held að spurningarnar sem brenna mjög á fólki séu til dæmis: Hvað þýðir þetta fyrir mig sem bý á Þórshöfn? Hvað þýðir þetta fyrir mig sem bý í Hnífsdal? Hefur þetta einhverjar breytingar í för með sér fyrir mig sem þjónustuþega?

Það þarf líka að liggja mjög ljóst fyrir gagnvart starfsmönnum. Mér sýnist að hugað sé vel að þeim í frumvarpinu en það þarf þó að liggja ljóst fyrir þeim starfsmönnum sem verða hugsanlega áfram á starfsstöðvunum hvað gerist í framhaldinu. Ég skil þetta frumvarp alla vega þannig að áfram verði starfsstöðvar víða um landið þó svo að þær verði undir öðru lögregluumdæmi en áður. Hvað þýðir þetta fyrir þá starfsmenn sem starfa þar? Verða þeir færri á þeim stöðum eða er jafnvel hægt að fjölga þeim og færa verkefni þangað? Það er nokkuð sem við þurfum að skoða vel. Verður flóknara fyrir lögregluna að veita þá þjónustu sem henni er ætlað að veita eða verður það hugsanlega eitthvað einfaldara?

Eins og ég kom að áðan er mjög óljóst hvort um fjárhagslega hagræðingu er að ræða og ég veit að hér á eftir að fara yfir það og reikna það út, en það þarf þá líka að taka tillit til þjónustuþeganna. Verða þeir fyrir auknum kostnaði? Þurfa einstaklingarnir víða um land að sækja þjónustuna lengra? Er þá verið að færa kostnaðinn yfir á einstaka samfélagsþegna, þjóðfélagsþegna? Það þarf að liggja ljóst fyrir, það er nokkuð sem ég vil að menn ræði. Auðvitað þurfum við að hafa það í huga að það búa skattgreiðendur um allt land, skattgreiðendur sem eru jafnréttháir þjónustuþegar. Þegar við ákveðum að fækka lögregluumdæmunum verðum við að skoða hvort það verði til þess að veikja innviði einhverra samfélaga það mikið að vafasamt sé að að samþykkja breytingarnar.

Þetta frumvarp tengist öðru frumvarpi því að þau eru svo svipuð. Það frumvarp verður til umræðu á eftir, þ.e. frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, sem sagt um sýslumannsumdæmin og sýslumannsembættin. Þessi embætti tengjast víða mikið og þau eru svipuð í eðli sínu. Það er mikilvægt að hafa þau atriði í huga við vinnslu þessara frumvarpa. Hins vegar er alltaf gott, og ég fagna því, þegar hægt er að taka málefnalega umræðu um þetta efni og hugsa um leið um þjónustuna og þjónustuþegana. Það er umræða sem okkur er öllum hollt og gott að taka.

Að lokum vil ég ítreka að þær umsagnir sem koma, og ég efast ekki um að þær detti hér inn í hrönnum, verði skoðaðar vel og að farið vel yfir þau rök með þjónustuna og þjónustuþegana í huga.