140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[17:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá mjög svo góðu umræðu sem hér hefur farið fram um ný lögreglulög eða breytingar á lögreglulögum.

Það er af ýmsu að taka. Svo að ég byrji á þeim spurningum sem beint var til mín og byrji aftan frá, ef svo má segja, á spurningum sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson setti hér fram — hann spurði um samstarfsnefndir lögreglu og sveitarfélaga, hvort í því væri fólgin breyting frá fyrra fyrirkomulagi. Staðreyndin er sú að samstarfsnefndir lögreglu og sveitarfélaga eru starfandi en sú breyting er gerð með þessu frumvarpi að sveitarstjórar innan umdæmis lögregluembættisins koma til með að sitja í þessum samráðsnefndum þannig að verið er að formfesta þær á skýrari hátt en verið hefur.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði, að sú hætta væri fyrir hendi ef embætti yrðu of smá og verkefnin mjög rýr að þá stæðu þau frammi fyrir þeirri hættu að vera hreinlega lögð niður þegar sverfur að efnahagslega. Þarna erum við einmitt komin að kjarna máls. Til þess að verja þessa þjónustu teljum við heppilegra að umdæmin verði stærri, öflugri, hafi meiri fjármuni handa á milli, geti skákað verkefnum til — sveigjanleikinn verði meiri fyrir bragðið og varnirnar á erfiðum tímum einnig.

Við munum að lokinni þessari umræðu ræða um sýslumannsembættin og fækkun þeirra. Nú er það svo að þessi umræða skarast mjög, umræðan um lögreglulögin og um sýslumannsembættin er samtvinnuð. Það var ein ástæðan fyrir því að við vildum láta þessar breytingar vera samstiga.

Eins og sakir standa eru 24 sýslumannsembætti í landinu. Lögregluembættin eru 15. Samtals erum við að tala um 39 embætti sem yrði fækkað í 16 vegna þess að við aðskiljum, samkvæmt þessum tillögum, lögregluna og sýslumannsembættin. Þetta ber að hafa í huga þegar við erum að tala um fækkun innan stjórnsýslunnar hvað varðar stjórnunarþáttinn að þá er hann ekki eins mikill og ætla mætti ef við skoðum þetta hvort í sínu lagi, lögregluna og sýslumannsembættin, við þurfum að skoða þetta heildstætt.

Það var alveg hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. Huld Aðalbjarnardóttur að markmiðin þurfa að vera skýr og við þurfum að gæta að því að veikja ekki innviði samfélagsins, eins og hún orðaði það. Aftur þar hafa þingmenn í þessari umræðu komið inn á kjarna máls. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði réttilega að á endanum snerist þetta ekki einvörðungu um lögreglustjóraembættin eða sýslumannsembættin heldur um starfsemina sem fram fer á vegum þessara embætta og það er náttúrlega mergurinn málsins.

Þegar við horfum til fækkunar embætta skulum við ekki gleyma því að það eru heimildir og gert er ráð fyrir því að innan umdæmanna verði starfsstöðvar þannig að þjónustan þarf ekki að færast frá vettvangi þótt stjórnsýslan og yfirstjórn hennar færist á einn stað. Allt er þetta gert, og ég ítreka það, til þess að ná fram meiri hagræðingu, að við nýtum fjármunina á markvissari hátt en við gerum núna.

Það er alveg rétt að fjárhagslegur ávinningur hefur ekki verið reiknaður í þaula enda er það mjög vandgert. Við erum að tala um skipulagsbreytingar inn í framtíðina. Við teljum það samkvæmt formúlu heilbrigðrar skynsemi að fjármunirnir nýtist betur í stórum embættum en mjög smáum. Það er náttúrlega þannig vegna tæknibreytinga og vegna bættra samgangna að landið lítur allt öðruvísi út en það gerði hér fyrr á tíð þegar víða var um torleið að fara og ekki aðgangur að þjónustu í gegnum tölvuna eins og nú er — við erum í gerbreyttu umhverfi.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spurði hvernig bráðabirgðaákvæði yrðu nýtt hvað varðar hugsanlega fækkun embætta. Það er alveg rétt, sem fram kom í hans máli, að samkvæmt þessum drögum munu lögin ganga í gildi í ársbyrjun 2015. En samkvæmt bráðabirgðaákvæði er gert ráð fyrir að hægt sé að ráðast í einhverjar breytingar — þetta á bæði við um sýslumannslögin og lögreglulögin — innan þess tíma. Það mundum við að sjálfsögðu ekki gera nema í góðri sátt. Ef forlögin færa okkur tækifærin upp í hendurnar og um það er sátt þá munum við gera það. En við erum ekki að ráðast í lögþvingaðar breytingar á kerfinu í heild sinni fyrr en í ársbyrjun 2015. Þetta á við um sýslumannsembættin og þetta á við um lögregluembættin og ég legg áherslu á að allar þessar hugmyndir eru unnar í mjög góðu samstarfi við lögreglustjórana í landinu, þeirra félag, og sýslumennina í landinu, þeirra félag. Landssamband lögreglumanna hefur komið að málum, við erum búin að fara í gegnum mikið umræðuferli. Við höfum tekið tillit til sjónarmiða sem fram hafa komið og þetta er afraksturinn.

Við teljum að þetta verði til þess að efla lögregluna þegar upp er staðið. Ýmsum spurningum er að sjálfsögðu ósvarað þar sem svörin liggja langt inni í framtíðinni en þó er gert ráð fyrir ákveðnum áherslubreytingum að því leyti að í stað þess að draga mjög úr vægi embættis ríkislögreglustjóra sem samræmingaraðila og þjónustuaðila við lögregluembættin í landinu, eins og áður var gert ráð fyrir, er snúið af þeirri braut. Það breytir ekki hinu að verkefni verði færð til einstakra lögregluembætta og þó kannski fremur til sýslumannsembætta. Ég veit ekki hvort ég ætti að koma að því í þessari ræðu en get gert það síðar og tíundað hvaða verkefni, sérhæfð verkefni, hafa verið falin sýslumannsembættunum í landinu til meðhöndlunar þar sem þau hafa sérhæft sig með afar góðum árangri. Þannig að að þessu leyti erum við fyllilega sammála.

Þau sjónarmið sem hér hafa verið reifuð, þær vangaveltur sem fram hafa verið settar, fara nú inn í umræðuna þegar málið kemur til kasta allsherjarnefndar Alþingis. Þá verður það sent til umsagnar og síðan munum við að sjálfsögðu skoða það sem þar kemur inn, nefndin mun gera það. En eins og ég gerði grein fyrir áðan geri ég ráð fyrir því að málið eigi aftur eftir að koma til kasta þingsins. Ég legg ekki áherslu á að það hljóti samþykki á vorþingi, mér finnst mjög mikilvægt að þingið fái gott ráðrúm til að gaumgæfa þessar hugmyndir og þessar tillögur, en við tökum síðan aftur til hendinni og tökum umræðu að nýju í haust.