140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[17:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála því sem fram kemur í máli hv. þingmanns og vil geta þess að í morgun átti ég ágætan fund með Landssambandi lögreglumanna. Lögreglumenn héldu landsfund í Stykkishólmi og sitja hann núna og hafa áhyggjur af því að fjárveitingar til löggæslunnar séu ekki sem skyldi, nokkuð sem er mjög skiljanlegt, og svipaðir tónar heyrast að sönnu frá öðrum þáttum stjórnsýslunnar eftir niðurskurðartímabil undangenginna ára. Við vonum að sólin hækki á lofti og ég tek undir með hv. þingmanni að löggæslan í landinu þarf að vera í góðu lagi og þær breytingar sem hér eru lagðar til eiga að stuðla að því að svo geti orðið.