140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla í héraði.

738. mál
[18:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir framsöguna. Þetta var mjög skýrt og ég fagna því að þetta mál mun fá ítarlega umfjöllun í nefndum þingsins. Það verður ágætt að fá inn þær umsagnir sem koma til með að varpa ljósi á einstaka ákvæði í þessu frumvarpi.

Mig langar aðeins að tala um umsögn fjármálaráðuneytisins sem fylgir þessu máli. Manni virðist sem fjármálaráðuneytið geri ráð fyrir því að ekki verði kostnaðarauki við þetta. Maður áttar sig ekki alveg á hvort það sé raunhæft af því að við vitum öll að á meðan verið er að breyta fellur til kostnaður en svo er spurning hvað gerist eftir á. En það stendur í umsögninni að innanríkisráðuneytið áformi að vinna að útfærslu á fjárhagsramma hinna nýju embætta á komandi missirum og að þeirri vinnu ljúki fyrir gildistöku laganna.

Ég átta mig á því að það er flókið og erfitt að reikna þetta út en það er svolítið óþægilegt að fara inn í málið án þess að átta sig aðeins betur á því hvaða ramma við erum þarna að tala um. Mig langaði bara að nýta tímann í fyrsta andsvari mínu til að athuga hvort ráðherrann gæti útfært þetta eitthvað örlítið betur fyrir okkur svo að við áttum okkur á málinu.