140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla í héraði.

738. mál
[18:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í raun má segja að það frumvarp sem hæstv. innanríkisráðherra mælir fyrir feli að nokkru leyti í sér róttækari breytingu en það sem lýtur að lögregluumdæmunum og við ræddum fyrr í dag. Að minnsta kosti ef horft er á fækkun embætta þá er ljóst að fækkun embætta samkvæmt þessu frumvarpi er miklu meiri en á lögregluumdæmunum því að þar átti töluverð breyting sér stað fyrir tiltölulega stuttum tíma eða fimm árum. Hér er því verið að stíga stærra skref hvað það varðar. Það skýrir að hluta til þær áhyggjur sem líka hafa vaknað vegna þessa frumvarps og það snýr fyrst og fremst að þjónustu við fámennari byggðir. Auðvitað ræðst það nokkuð af því hvað úr verður miðað við það sem hæstv. ráðherra talar um í sambandi við útstöðvar eða þjónustustöðvar þessara embætta. Við rennum auðvitað dálítið blint í sjóinn með það en hættan sem margir þingmenn landsbyggðarinnar og sveitarstjórnarmenn hafa lýst í því sambandi er auðvitað sú að niðurskurður eða sparnaður muni töluvert bitna á hinum strjálbýlli svæðum.

En það var annað atriði sem ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra um í þessu andsvari. Það lýtur fyrst og fremst að umdæmamörkum og staðsetningu embætta. Í báðum þessum frumvörpum er gert ráð fyrir því að umdæmamörk séu ákvörðuð nákvæmlega í reglugerð en ekki með lögum. Eins liggur fyrir að það er ráðherra sem ákveður með reglugerð hvar aðalstöðvar embætta verða. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta væri ekki atriði sem þyrfti að ræða í þinginu.