140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla í héraði.

738. mál
[18:56]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Ég vil byrja á að hrósa hæstv. innanríkisráðherra fyrir að koma með mál svona tímanlega til þingsins. Góður tími gefst til að ræða þetta, talað er um að þetta eigi að taka gildi 2015 og er til fyrirmyndar að þingið fái góðan tíma til að ræða jafnviðamikið mál og þetta.

Þetta mál tengist frumvarpi sem við ræddum áðan um breytingar á lögreglulögum. Ég kom aðeins inn á ýmsa þætti varðandi þjónustu við íbúa á landsbyggðinni og langar aðeins til að ræða það frekar.

Hæstv. ráðherra sagði í framsögu sinni að óhjákvæmilegt væri að fækka hagræðingarinnar vegna. Nú er það svo að þetta er gríðarlega mikil fækkun, úr 24 embættum í átta. Nú er ég ekkert að segja að þau sýslumannsembætti sem eru í dag þurfi endilega að vera eins mörg og þau eru en það er alveg ljóst að miðað við frumvarpið munu mörg störf á landsbyggðinni tapast. Ég tel mikilvægt að spyrna fótum við slíkum fréttum því að eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur, þá hefur undanfarin ár verið mjög mikið um hagræðingu í opinberri stjórnsýslu á landsbyggðinni og í velferðarkerfinu sem hefur komið niður á þjónustu við íbúana. Ég hef miklar áhyggjur af því að þjónusta við íbúana versni enda er það alveg ljóst að ef á að fækka þarna úr 24 niður í átta þá er það gríðarlega mikil breyting. Nú kemur fram í frumvarpinu að það eigi að vera þjónustumiðstöðvar sem þarf kannski að skýra aðeins betur út.

Það er ljóst miðað við þetta að hætta er á því að margir þurfi að fara um langan veg til að sækja þjónustu sýslumanna og sýsluskrifstofa. Þangað verða íbúar alls staðar að af landinu að sækja mjög reglulega og því er mjög mikilvægt að þetta sé skoðað vandlega og yfirvegað.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga í ljósi þess sem fram hefur komið. Það er varðandi þessar þjónustumiðstöðvar, það eru hugmyndir um hvar þær skulu staðsettar. Er mögulegt að þjónustumiðstöðvar verði á þeim stöðum þar sem í dag eru sýslumannsembætti? Verður fjármagn til þeirra sýslumannsembætta sem eftir standa tryggt? Ég þekki vel til í landbúnaðinum og langar aðeins að minnast á smádæmisögu af því. Varnarlínum búfjársjúkdóma var fækkað gríðarlega á landinu. Þær voru fjöldamargar en urðu örfáar. Samt sem áður er staðan sú í dag að ekki fæst fjármagn til að viðhalda þeim fáu línum sem þó eru eftir. Þess vegna er eðlilegt að spyrja um þetta. Það hefur verið raunin að þegar hagrætt hefur verið á þennan hátt hefur fjármagn ekki fylgt.

Mig langar einnig að spyrja hvort hæstv. ráðherra telur að þjónustan muni batna. Hann fór aðeins yfir möguleika á rafrænni stjórnsýslu og er það vel. En við vitum að á landsbyggðinni er víða stopult samband við umheiminn í gegnum netið þó að það hafi vissulega lagast mjög mikið og að auki nýta ekki allir landsmenn sér þennan rafræna hugbúnað. Mig langar að forvitnast um hvort þjónustan muni batna. Menn hafa gert grín að opnunartíma sýsluskrifstofa, margir segja að þær séu opnar milli hálftvö og 13.30. Það er rétt að spyrja aðeins út í það.

Að lokum langar mig til að spyrja varðandi þessa tilfærslu verkefna. Nú er ljóst og kemur fram í umsögnum að sýslumannsembættin eru að leysa hin ýmsu verkefni, sem er vel. Mig langar að spyrja: Eru frekari hugmyndir um tilfærslu verkefna til sýslumanna og er mögulegt að þær tilfærslur á verkefnum gætu farið fram á þjónustumiðstöðvum sýslumanna en ekki í höfuðstöðvum þeirra á hverjum stað?