140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og dómsorð landsdóms eru gríðarlegur áfellisdómur yfir þeim vinnubrögðum sem tíðkast hafa við stjórn landsins síðustu ár og áratugi. Ef það er raunverulegur vilji Alþingis að brjótast út úr þeim viðjum foringjaræðis sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og leitt okkur í þær hremmingar sem við nú erum í er nauðsynlegt að við drögum lærdóm af því sem þar kemur fram og tökum starfshætti okkar til endurskoðunar. Það virðist hins vegar reynast mörgum erfitt.

Tilfinningar og geðshræring geta afvegaleitt fólk og ég tel að það hafi gerst í gær í umræðu undir liðnum um störf þingsins. Þar komu fram fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast hvað mig varðar. Því miður fékk ég ekki tækifæri til að bregðast við í gær en vil gjarnan gera það hér og nú.

Í öllum mínum málflutningi í tengslum við landsdómsmálið hef ég lagt áherslu á alvarleika þess stjórnarskrárbrots sem fyrrverandi forsætisráðherra var dæmdur fyrir. Nægir þar að benda á ræður sem ég flutti 20. september 2010 og 20. janúar 2012. Það er staðföst trú mín að ef við eigum að bera til þess gæfu að byggja upp betra Ísland í kjölfar hrunsins þurfum við að ráðast gegn foringjaræði og efla lýðræðið. Áhersla á peninga og völd verður að víkja fyrir áherslu á lýðræði og samvinnu. Rannsóknarnefnd Alþingis og landsdómur staðfestu þá trú mína. Grundvöllur þess er virðing fyrir stjórnarskrá lýðveldisins og þeirri stjórnskipun sem hún kveður á um.