140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Þegar lagt var af stað með umsóknarferli um aðild að Evrópusambandinu var mikið rætt um að þar ættu að viðgangast fagleg vinnubrögð en umfram allt lýðræðisleg og upplýst umræða. Því miður hefur reyndin orðið önnur. Hvað eftir annað höfum við rekið okkur á það að grundvallaratriðum málsins er annaðhvort haldið úr umræðu hér, málin hreinlega þögguð niður, eða út úr þeim snúið. Nú hefur málið hins vegar þróast enn á verri veg því að við verðum hvað eftir annað vör við að sú staða sem umsóknarferlið er komið í hefur orðið til þess að stjórnarmeirihlutinn beitir brögðum til að þoka málinu áfram.

Ég nefni sem dæmi hvernig haldið hefur verið á umræðu um svokallaða IPA-styrki. Það hefur ekki verið gefið tækifæri til þess að það mál væri yfirfarið sem vera skyldi og það hefur ekki verið gefið tækifæri til að ræða þau mál sem var eðlilegt og nauðsynlegt að ræða áður en IPA-styrkir yrðu afgreiddir úr nefndum.

Nokkrir nefndarmenn í utanríkismálanefnd eru margítrekað búnir að biðja um að staða umsóknar að Evrópusambandsaðild yrði rædd í nefndinni og hér í þinginu. Það hefur líka verið margbeðið um að staðan í makríldeilunni yrði rædd. Það hefur ekki fengist sett á dagskrá. Hv. þm. Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur beðið líklega í nokkra mánuði eftir að fá að ræða við hæstv. forsætisráðherra um Evrópusambandsumsóknina. Þessu er öllu haldið í bið, umræðan þögguð niður en á sama tíma er brögðum beitt til að (Forseti hringir.) þoka málinu áfram af hálfu ríkisstjórnarinnar.