140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að hefja mál mitt á því að segja: Til hamingju, Ísland, með nýjan biskup. Enn eitt karlavígið er fallið sem hlýtur að teljast merkilegur áfangi í jafnréttisbaráttunni á Íslandi. Mörg karlavígi hafa fallið á undanförnum árum, ekki síst í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar. Fyrstu konurnar gegna nú embætti forsætisráðherra og fjármálaráðherra og karlavígið formaður fjárlaganefndar féll líka í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Fleira mætti telja upp. Þetta hlýtur að teljast frábær árangur en enn er margt óunnið í jafnréttisbaráttunni.

Launamunur kynjanna er þar svartasti bletturinn sem verður að finna markvissar leiðir til að vinna á. Því tengt má nefna launamat starfa. Þannig virðist það að höndla með peninga og lagaflækjur mun betur metið til launa en störf sem krefjast sambærilegrar menntunar en felast í því að vinna með börn, ungmenni og sjúklinga, þ.e. að vinna með fólk. Það er algengt að konur hafi áhuga á þeim störfum og vinni þau.

Enn eitt atriði sem mig langar til að nefna er orðræða og umræðuhefð. Þar hafa konur oft tamið sér aðrar venjur en hið fyrrum ráðandi karlkyn. Í þessum ræðustól er til dæmis algengt að stórkarlalegar fullyrðingar fjúki, oft lítt rökstuddar, þar sem hjólað er í manninn en ekki málefnið. Konur nota oft aðrar aðferðir í málflutningi sínum, vilja vega og meta rök, ræða málefni og hafa ekki þörfina fyrir að hafa mjög hátt. Þær nýta sér oft ágætlega þá líffræðilegu staðreynd að maðurinn hefur tvö eyru en bara einn munn. Fjölmiðlar virðast hafa mun meiri áhuga á aðferðum karlanna en kvennanna og rata þeirra athugasemdir, hefðir og gildi því oftar í fjölmiðla.

Konur sitja nú í mörgum valdastöðum í þjóðfélaginu. Gildismat þeirra og starfshættir þurfa að verða áberandi og gildandi. Slíkt tekur auðvitað tíma en við þurfum að fara að sjá þess fleiri og fleiri merki.

Að lokum, sem betur fer eru margir karlar í góðu sambandi við sínar kvenlegu hliðar og til í slaginn með okkur. (Forseti hringir.) Þjóðin er orðin leið á stórkarlalegu karpi og vill alvörurökræður, samvinnu og aðrar leiðir sem eru að hætti kvenna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)