140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er mikið fagnaðarefni að við afgreiddum í morgun IPA-styrkina úr utanríkismálanefnd (Gripið fram í.) því að það greiðir fyrir atvinnuskapandi þekkingarverkefnum og gjaldeyrisöflun í landinu. Ég bið hv. stjórnarandstöðu um að vera ekki svona óskaplega morgunfúla yfir því að hér sé verið að innleiða sjálfsagðar alþjóðlegar skattaívilnanir til að auka umsvifin í hagkerfinu. Til þessa hélt ég að stjórnarandstaðan talaði heldur fyrir slíkum sjónarmiðum en það virðist vera svo að vegna þess að málið tengist Evrópu megi ekki gera sjálfsagðar ráðstafanir til að greiða fyrir þessum auknu umsvifum.

Hvað á þessi hentiafstaða eiginlega að þýða af hálfu forustumanna Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins? Vilja þeir kannski hætta almennt viðskiptum við Evrópu? Á að loka landamærunum eða segja upp öllum samningum við ríki Evrópusambandsins af því að þeir vilja ekki verða aðilar að því? Nei, og auðvitað var ekki nema sjálfsagt að afgreiða málið í utanríkismálanefnd í morgun og það með fullkomlega eðlilegum hætti gert. Ég get fullvissað stjórnarandstöðuna um að hv. þingmenn Róbert Marshall og Lúðvík Geirsson greiddu atkvæði með nákvæmlega sama hætti og félagar okkar og andlegir bræður, þeir hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Mörður Árnason, aðalmenn þeirra í nefndinni, hefðu gert ef þeir hefðu verið viðstaddir. (Gripið fram í.) Það lá fyrir í fundarboði að málið væri á dagskrá án gesta kl. 8.30 í morgun og mátti öllum nefndarmönnum vera ljóst að það væri ástæða til að mæta tímanlega og taka þátt í afgreiðslu málsins því að þar sem ekki voru gestir boðaðir undir þeim lið mátti augljóst vera að afgreiða ætti málið, enda mánuður síðan það var afgreitt úr efnahags- og viðskiptanefnd og ekki eftir neinu að bíða að innleiða þessar sjálfsögðu skattaívilnanir og greiða fyrir gjaldeyrisöflun sem við þurfum mjög á að halda, Íslendingar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)