140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Umræða um úrskurð og niðurstöðu landsdóms hefur komið inn í þingsali í gær og í dag en í raun og veru er úrskurðurinn 400 síðna áfellisdómur yfir þeirri stjórnsýslu sem Sjálfstæðisflokkurinn byggði upp hér á landi undanfarin ár, áfellisdómur yfir vinnulagi, verklagi, ákvarðanatöku og ekki ákvarðanatöku.

Ég hef aldrei undanskilið minn eigin stjórnmálaflokk og ábyrgð hans í þessu öllu saman. Til dæmis fer landsdómur hörðum orðum um vinnubrögð í ríkisstjórn frá árinu 2007. En munurinn á flokkunum tveimur er sá að Samfylkingin hefur ítarlega farið yfir sína ábyrgð, endurskrifað vinnureglur sínar og samið ítarlegar siðareglur um háttalag og hegðun kjörinna fulltrúa, allt til þess að læra af. Þá hefur ríkisstjórnin tekið allt verklag Stjórnarráðsins til endurskoðunar.

Hins vegar hefur Sjálfstæðisflokkurinn tætt sína endurreisnarskýrslu í sig og hló landsfundur flokksins sig máttlausan þegar fyrrverandi formaður flokksins gerði lítið úr þeirri miklu vinnu sem grasrót flokksins hafði staðið að. Ég tel að við eigum að nota úrskurð landsdóms til að horfa fram á veginn, nýta hann sem stökkpall til nýrra vinnubragða í stjórnmálum en það gerum við ekki nema þingmenn og lykilfólk Sjálfstæðisflokksins nálgist niðurstöðu landsdóms af auðmýkt og virðingu og viðurkenni ábyrgð sína. Þar skortir á.

Það mundi hjálpa mikið íslenskri stjórnmálamenningu ef flokkurinn mundi nálgast þennan úrskurð og viðurkenna þá slæmu stöðu sem til dæmis íslensk heimili voru í þegar flokkurinn skildi við efnahagsmálin. (Gripið fram í: Líttu í eigin barm.) Þegar flokkurinn hefur fundið auðmýktina á flokkurinn að geta horft fram á veginn en þangað til mun fortíðin alltaf flækjast fyrir honum. (Gripið fram í: Líttu í eigin barm.) Og það sem er alvarlegast, virðulegi forseti, að ef flokkurinn gerir ekki upp fortíð sína og viðurkennir ábyrgð sína verðum við því að vera undirbúin að flokkurinn muni innleiða sömu vinnubrögðin á ný takist honum að komast til valda.