140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Allsherjar- og menntamálanefnd og velferðarnefnd hafa á tveimur fundum fjallað um stöðu Íslenskrar ættleiðingar og stöðu ættleiðingarmála hér á landi. Það voru fréttir af því um daginn að nokkurt uppnám væri í þeim viðkvæma málaflokki og kölluðum við til fundar forustumenn Íslenskrar ættleiðingar og innanríkisráðuneytisins í dag. Þar er unnið að gerð þjónustusamnings þar sem um er að ræða verulega aukningu á verkefnum og fjármunum til þessa félags sem hefur mikilvægt og flókið stjórnsýslulegt hlutverk við að eiga, t.d. að tryggja þjónustu við börnin og fólkið sem er að ættleiða á milli landa, og sérstaklega það að ná samningum við ný lönd. Nú eru um 100 manns á biðlista eftir ættleiðingum og markmiðið er auðvitað að bæta og efla þessa þjónustu og fjölga verulega ættleiðingum. Hæstv. utanríkisráðherra tók þetta upp á fundum sínum við ráðamenn í Rússlandi á dögunum og unnið er að því í ráðuneytinu og hjá ættleiðingarfélaginu að ná samningi við Rússland um ættleiðingar á milli landa.

Það stefnir í það samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu að áfangi náist, a.m.k. núna í vor, í þjónustusamningsgerðinni en auk þess er unnið að endurskoðun laganna í heild og von er á niðurstöðu í þeim málaflokki í haust. Þetta er hugsjónarekið félag með lítil fjárráð en gríðarlega mikið hlutverk í því flókna ferli sem ættleiðing á milli landa er.

Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að þetta mál er í afar jákvæðum farvegi á milli ráðuneytis og félagsins þannig að ættleiðingar og þeir sem bíða og standa í því ferli núna þurfa ekki að óttast að það verði neitt hik á því eða að þetta flókna ferli verði með neinum hætti tafið út af því að ekki náist samningar á milli ráðuneytis og ættleiðingarfélagsins um framvindu og framhald þessa máls.