140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Líkt og aðrir velunnarar kvenréttinda og kristinnar kirkju ætla ég að hefja mál mitt á því að óska nýkjörnum biskupi yfir Íslandi, frú Agnesi Sigurðardóttur, hjartanlega til hamingju með kjörið og óska henni farsældar í starfi. Ég tel að hún sé mjög vel að þessu starfi komin þar sem ég þekki hana og til starfa hennar í hlutverki sóknarprests og prófasts.

Í dag hefur verið deilt um dómsniðurstöðu landsdóms og menn eru farnir að streyma í ræðustól til að túlka þá niðurstöðu í þingsal. Ég lít ekki á það sem hlutverk þingsins að deila um niðurstöðu æðstu dómstóla og mér finnst það óviðeigandi í máli sem þessu. Dómsorðið stendur og það talar fyrir sig sjálft. Í því segir, með leyfi forseta:

„Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir að hafa af stórfelldu gáleysi látið farast fyrir að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni eins og fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrárinnar, þrátt fyrir að honum hlaut að vera ljós sá háski, sem vofði yfir bankakerfinu og þar með heill ríkisins …“

Þetta er alvarlegur og þungur dómur, frú forseti, sem mér finnst ekki efni til að deila mikið um hér. Túlkanir og eftiráskýringar eru þar af leiðandi ekki mjög viðeigandi eins og sakir standa.

Góðu tíðindin eru kannski þau í ljósi þessarar niðurstöðu að þau stjórnsýsluatriði sem sakfellt er fyrir hafa verið og er verið að færa til betri vegar hjá æðstu stjórn ríkisins eins og sakir standa. Verið er að taka á því sleifarlagi sem fólst í hinni slöku og óformlegu stjórnsýslu sem viðgengist hefur um langt árabil og var sjúkdómseinkenni þess að litið var meðal annars á málefni fjármálakerfisins sem innanflokksmál Sjálfstæðisflokksins og þau rædd í óformlegu spjalli milli manna en ekki á formlegum vettvangi. (Forseti hringir.) Það eru betri tíðindin en landsdómur er fallinn (Gripið fram í.) og þá niðurstöðu ber okkur (Gripið fram í.) að taka alvarlega. (Gripið fram í.) Það tek ég alvarlega og það held ég að sjálfstæðismenn ættu að gera líka. [Háreysti í þingsal.] (Gripið fram í: Varaforseti hagar sér eins og götustelpa í þingsal.) (Gripið fram í: Margur heldur mig sig.) [Kliður í þingsal.]