140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

umræða um stöðu ESB-viðræðna.

[11:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir þær aukalegu fimm mínútur sem veittar voru til umræðunnar sem verður á eftir. Það var vel gert. Um leið vil ég taka undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni og gagnrýna það að hér á eftir skuli utanríkismálaumræða fara fram án þess að hin sérstaka umræða um stöðuna í Evrópusambandsviðræðunum hafi farið fram á þinginu. Þessi beiðni hefur legið fyrir mjög lengi. Skýrsla hæstv. utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál snertir margt fleira en Evrópusambandið og ég hef áhuga á að ræða þau mál sérstaklega.

Varðandi það að hv. þingmanni hafi verið svarað því til að hæstv. forsætisráðherra hefði ekki áhuga á að taka þessa umræðu vil ég geta þess líka að til að leysa þennan ágreining óskaði ég eftir því við hæstv. utanríkisráðherra fyrir allnokkru að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) flytti þinginu munnlega skýrslu um stöðu aðildarviðræðna en ég hef ekki fengið svar við þeirri beiðni. Það hefði verið afar vel til fundið að hafa þá umræðu (Forseti hringir.) á undan þeirri sem fer fram í dag.