140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

umræða um stöðu ESB-viðræðna.

[11:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessari umræðu bara til að ítreka það að ég hef nokkrum sinnum á þessum vettvangi óskað eftir því að fram færi ítarleg umræða um stöðu Evrópusambandsaðildarinnar í ljósi breyttra aðstæðna að mörgu leyti. Ég hef bæði gert það í þingsal við nokkur tækifæri og eins á einum eða tveimur fundum formanna þingflokka sem ég hef setið sem staðgengill.

Ég hef jafnan lýst því yfir að ég hafi persónulega ekkert ofboðslega sterkar skoðanir á því hvert formið á þeirri umræðu ætti að vera, ég legði mesta áherslu á að sú umræða færi fram. Ég hygg að ég hafi fyrst nefnt þetta 20. janúar. Ég bendi á þetta í ljósi þess að það er miklu brýnna núna en það var 20. janúar að þessi umræða fari fram. Ég tek undir það sem fram hefur komið, hin almenna skýrsla utanríkisráðherra tæmir ekki þessa umræðu. Það verður talað um Evrópumálin í dag en það tæmir ekki þá sérstöku umræðu um stöðu aðildarviðræðna sem þarf að eiga sér stað (Forseti hringir.) í einu eða öðru formi.