140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

umræða um stöðu ESB-viðræðna.

[11:15]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vildi sagt hafa um þá umræðu sem hér hefur orðið. Í fyrsta lagi er það eðlilegasti og sjálfsagðasti hlutur í heimi að umræður um stöðu aðildarviðræðna við ESB eigi sér stað við utanríkisráðherra sem er manna fróðastur um stöðuna á þeim málum [Hlátur í þingsal.] og væri dálítið sérstakt að beina þeirri umræðu til hæstv. forsætisráðherra, enda eru menn væntanlega að fara í umræðuna til að hafa hana djúpa [Hlátur í þingsal.] og til að fá betri þekkingu á því hvað er í raun og veru að gerast. [Hlátur í þingsal.] Ég sé að orð mín falla í kómískan jarðveg hjá hv. þingmönnum og er það vel, en skilningur minn er sá að vilji menn hafa umræðuna dýpri þá eiga þeir hana við fagráðherrann á því sviði sem viðfangsefnið snertir. [Hlátur í þingsal.]

Hitt sem ég vildi sagt hafa, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) er að ég held að það sé rétt að við förum að vinda okkur í þá umræðu sem fram undan er vegna þess að vilji menn tala um utanríkismál og þar með um stöðuna á viðræðunum við ESB (Forseti hringir.) ættu þeir að hætta því málþófi sem hér er hafið og hefja þá umræðu. (Gripið fram í: Vá.) (Gripið fram í.)