140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

umræða um stöðu ESB-viðræðna.

[11:16]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þær upplýsingar um að forseti hafi beitt öllum sínum áhrifum til að forsætisráðherra kæmi hingað og tæki þátt í þessari umræðu. Ég bendi á að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið er stærsta mál þingsins og þjóðarinnar. Hún snýst um fullveldisafsal. Hún snýst um það hvernig við semjum og um margháttaða þætti í okkar samfélagi. (Gripið fram í.) Þarna lá fyrir ályktun Evrópuþingsins, inngrip í íslenska stjórnsýslu, íslenskan ákvörðunarrétt Alþingis. Ég er með þá skýrslu hér þar sem menn álykta og fagna ráðherrabreytingunum sem forsætisráðherra beitti sér fyrir um síðustu áramót þar sem sá sem hér stendur var látinn víkja. Hvað kemur Evrópusambandinu það við þannig að það þurfi að álykta um það sérstaklega og fagna því?

Ég vildi ræða það við forsætisráðherra (Forseti hringir.) sem ber ábyrgð á málinu í heild sinni, (Forseti hringir.) og þá ekki síst fullveldismálinu, en láta það ekki drukkna hér í heildarræðu (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra sem mun ábyggilega krydda sína ræðu með mörgum skemmtilegheitum (Forseti hringir.) til að forðast alvöruþungann í málinu.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann og biður hv. þingmenn um að virða hann.)