140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

umræða um stöðu ESB-viðræðna.

[11:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil koma hingað upp undir þessum lið, fundarstjórn forseta, og taka undir beiðni hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að eiga viðræður við forsætisráðherra um það stefnumál ríkisstjórnarinnar sem forsætisráðherra hefur lagt ríka áherslu á að sé helsta og jafnvel eina stefnumál ríkisstjórnarinnar. Hæstv. utanríkisráðherra hefur látið að því liggja í blaðagreinum að fljótlega þurfi Samfylkingin að taka upp nýja stefnu þar sem sú umræða fari fram um að þetta stefnumál sé að detta út.

Það er líka rétt sem fram kom hjá hæstv. utanríkisráðherra, að hann hafi verið tilbúinn að taka þessa umræðu að sér og hafa hana síðasta mánudag, en það varð samkomulag allra um að falla frá því vegna þess að það mundi falla saman við þann tíma þegar landsdómur yrði kveðinn upp. Hv. þm. Jón Bjarnason óskaði eftir umræðu, sú beiðni stendur enn og ég tel að forseti verði að verða við henni. Umræðan í dag, um stöðu ESB-viðræðna, mun hins vegar (Forseti hringir.) gjalda fyrir það að sú umræða hefur ekki farið fram því að það eru vissulega mjög mörg önnur utanríkismál sem við þurfum að eiga við hæstv. utanríkisráðherra.