140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[11:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrri spurninguna sem við ræddum áðan þá vek ég athygli hv. þingmanns á því að þær hugmyndir sem komu fram í upphafi evruvandans um að safna enn frekari völdum með breytingum á sáttmálum yfir til Brussel hafa kannski ekki að öllu leyti fjarað út en þær hafa dvínað mjög og niðurstaðan hefur orðið allt önnur en menn töluðu um og vafalaust ekki mjög óhugnanleg hv. þingmanni og hugsanlega mér líka.

Varðandi makríldeiluna sagði ég í ræðu minni áðan að það væru þrír til fimm mánuðir þangað til við sæjum það verkfærabox sem ESB hyggst búa til og taka síðan ákvarðanir um með hvaða hætti það notar það. Ég sagði líka: Við skulum þegar og ef að því kemur að því verði beitt ræða saman okkar viðbrögð og ég geri ráð fyrir að við gerum ekkert í því efni öðruvísi en að hafa náið samráð við utanríkismálanefnd.