140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[11:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef síðasttalda fullyrðing hv. þingmanns er rétt kynni það að gera Evrópusambandið eftirsóknarverðara í augum sumra í þessum sal. (Gripið fram í.) Ég þekki að minnsta kosti sumar hugmyndir hv. þingmanns, eins og um útstreymisskatt, og ég tel að það sé hugmynd sem er það gild að hún eigi að vera til umræðu þegar menn safna saman ráðum um hvernig við eigum að leysa þennan vanda. Það hef ég reyndar sagt áður og ég vek eftirtekt á því að sumir af þeim fræðingum sem hv. þingmaður getur lesið um í þeirri skýrslu sem hún hefur fyrir framan sig hafa verið kallaðir til ráðslags og jafnvel stefnumótunar í tengslum við aðildarumsókn og þeir hafa lýst yfir stuðningi við útfærslu á því. (LMós: Af hverju studdir þú mig ekki?)

Þingmaðurinn spyr af hverju ég hafi ekki stutt hana. Ég hef oft stutt hana með ýmsum hætti og ég tel að hugmynd hv. þingmanns um útstreymisskatt sé ein af þeim sem við þurfum að hafa á borðinu þegar verið er að ræða þennan mikla vanda því að klárt er að þeim sem ekki vilja fara þá leið sem ég legg til ber þá skylda til að leggja fram aðra betri. (Forseti hringir.) Mjög fáir hafa lagt fram leiðir. Hv. þingmaður hefur gert góða tilraun til þess en mjög fáir (Forseti hringir.) utan hennar.