140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[12:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á bls. 99 í skýrslu utanríkisráðherra er fjallað um fríverslunarviðræður við Kína. Eins og flestir vita voru kínversk stjórnvöld hér í opinberri heimsókn nýverið, forsætisráðherra Kína og viðskiptaráðherra, og heyrðum við meðal annars fregnir af fjárfestingu upp á 127 milljarða íslenskra króna í íslensku atvinnulífi. Útflutningur frá Íslandi til Kína hefur aukist um 60% á milli áranna 2010 og 2011. Innflutningur frá Kína til Íslands hefur aukist um 20%. Þetta er ört vaxandi hagkerfi og bárust fregnir af því að það væru að hefjast fríverslunarviðræður milli þessara landa.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að er: Munum við sjá stefnubreytingu hvað það snertir að í auknum mæli verði leitast við að gera fríverslunarsamninga sem þessa? Í annan stað: Getur hæstv. utanríkisráðherra staðfest það sem hefur verið í fregnum, að verðum við aðilar að Evrópusambandinu muni þessi fríverslunarsamningur, verði hann að veruleika, falla úr gildi?