140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[12:05]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þær fregnir um að hefja eigi fríverslunarviðræður á nýjan leik hljóta að benda til þess að jafnvel hæstv. utanríkisráðherra sé að átta sig á því að víðsýn utanríkisstefna er betri en þröngsýn og mikilvægt er að horfa til þeirra hagkerfa sem eru að vaxa og hafa bolmagn fremur en þeirra hagkerfa sem eru að dragast saman og meðalaldur fólks að hækka o.s.frv.

Það sem mig langar síðan að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að snýr að þeirri umræðu sem var hér áðan um að forsætisráðherra hefði ekki enn gefið kost á því að ræða Evrópusambandsmál og að hæstv. utanríkisráðherra yrði í síauknum mæli fyrir því að fjallað væri um að hann kæmi ekki öllum upplýsingum upp á borðið hvað snertir Evrópusambandsviðræðurnar. Til að mynda hafa fulltrúar í utanríkismálanefnd lengi óskað eftir því að Timo Summa komi fyrir nefndina til að fjalla um ýmis mál og fleira í þeim dúr.

Er það ekki áhyggjuefni fyrir hæstv. utanríkisráðherra að svo virðist vera sem enginn vilji tala fyrir Evrópusambandsumsókninni nema hann sjálfur (Forseti hringir.) og að andstaðan vaxi dag frá degi? Nú síðast eru Samtök iðnaðarins orðin á móti. (Forseti hringir.) Er það ekki áhyggjuefni að enginn virðist vilja tala fyrir umsókninni nema hæstv. utanríkisráðherra?