140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[12:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil ítreka orð mín úr andsvari um þakkir til ráðherrans fyrir skýrsluna. Hún er nokkuð ítarleg, yfir 100 blaðsíður að lengd. Ég hygg að það hafi verið, eins og ég lét hér áður getið, mjög skynsamlegt af okkur í þinginu að efna til sérstakrar umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál.

Í inngangi skýrslunnar er komið inn á ýmis atriði. Skýrslan er brotin upp í kafla þar sem víða er komið við. Eins og gefur að skilja er Evrópusambandskaflinn mjög fyrirferðarmikill og ég mun nota mestan hluta ræðutíma míns í að ræða stöðu viðræðna við Evrópusambandið en ætla að láta þess stuttlega getið í upphafi að það er auðvitað fjölmargt annað að gerast í utanríkismálum okkar sem máli skiptir og þarf að taka umræðu um á þinginu og gefa gaum. Ráðherrann kom inn á nokkur þeirra atriða. Þau eru mörg hver rakin ágætlega í skýrslunni. Þar er að sjálfsögðu um nokkra ólíka þætti að ræða. Ég get nefnt þróunarsamvinnuna og eins og ráðherrann hefur gert í inngangi skýrslunnar er komið inn á ánægjuleg verkefni sem við höfum stuðlað að í Afríku. Það eru áfangar sem ber að fagna og engum vafa undirorpið að við getum látið mjög gott af okkur leiða í þróunarsamvinnustarfi. Mér finnst hafa tekist ágætlega til á þeim vettvangi.

Samstarf við önnur lönd um jarðhita er málaflokkur sem skiptir líka miklu. Hann skiptir ekki bara miklu í pólitísku samhengi, hann skiptir líka miklu máli í viðskiptalegu samhengi vegna þess að þar eru undir fjölmörg störf fyrir sérfræðinga okkar til að láta gott af sér leiða á viðkomandi svæðum. Norðurslóðamálin eru málaflokkur sem verður í vaxandi fókus á næstu árum, þeim eru gerð ágæt skil.

Ég ætla að fara að vinda mér í Evrópumálin sem mér finnst að verðskuldi mestan tíma í umræðunni í dag.

Um Evrópumálin vildi ég fyrst segja að ekki var farið af stað í viðræðurnar með eðlilegum hætti. Það vita allir að það var hluti af stjórnarsáttmála flokka sem hafa ólíka stefnu í Evrópusambandsmálum, það var hluti af samstarfssamningi þeirra að leggja inn aðildarumsóknina. Þingskjalið sjálft bar það með sér hversu mikil málamiðlun hafði verið gerð af hálfu Vinstri grænna í málinu þar sem því var haldið til haga að menn mundu eftir atvikum leggjast gegn aðild þegar fram í sækti. Í umræðum um þingsályktunartillöguna á Alþingi kom síðan fram, jafnvel frá ráðherrum, að það kynni að gerast í viðræðuferlinu sjálfu að menn teldu rétt að stöðva viðræðurnar ef eitthvað það kæmi upp á sem gæfi tilefni til þess. Allt var þetta svona háð mikilli þoku. Talað var óskýrt og ljóst að menn voru að reyna að komast yfir erfiðan kafla á upphafsdögum ríkisstjórnarinnar.

Það sem gerst hefur síðan þetta var er að menn hafa þurft að takast á við verkefnið, vegna þess að það hefur ekki beðið. Þá hefur komið upp hvert málið á fætur öðru þar sem þessi veika byrjun, þessar veiku forsendur sem lagt var af stað með, hefur þvælst fyrir ríkisstjórninni.

Ég ætla að fara inn á nokkur mál til vitnis um þetta sem draga fram þann vandræðagang sem verið hefur og hann er allur ríkisstjórninni sjálfri að kenna. Þetta er heimatilbúinn vandi.

Höfum það í huga hvað sagt var strax í upphafi. Það var sagt að við þyrftum að koma umsókninni inn sem allra fyrst, þá strax um sumarið 2009 vegna þess að Svíar væru þá í forsæti í Evrópusambandinu, þá sex mánuði. Það mundi hafa úrslitaáhrif á það hvernig málinu yrði tekið. Gott og vel. Tekin var ákvörðun um að hefja samningaviðræður við Íslendinga. Ég hygg að það hafi engin EES-þjóð, engin þjóð sem þegar var inni á Evrópska efnahagssvæðinu verið jafnlengi að semja við Evrópusambandið um að fá niðurstöður í sín mál. Það er staðreynd málsins. Frá því Svíarnir hurfu á braut voru tvær þjóðir með forustu í Evrópusambandinu árið 2010, aðrar tvær árið 2011 og svo eru Danir að taka við núna. Hver þjóðin á fætur annarri hefur tekið að sér að leiða Evrópusambandsviðræðurnar við Ísland fyrir þeirra hönd, það hefur nákvæmlega engin áhrif haft á framgang viðræðnanna.

Þegar maður skoðar stöðu viðræðnanna samkvæmt köflum sem raktir eru á bls. 22 og áfram og síðan í aðdraganda þess á bls. 20–21 kemur í ljós að það eru 33 samningskaflar sem við þurfum að ræða við Evrópusambandið um. Viðræður eru hafnar um 15 kafla og hefur þegar lokið til bráðabirgða í tíu köflum af þessum 15. En, takið eftir, flestir þessara kafla samræmast íslenskri löggjöf nú þegar vegna þátttöku Íslands í EES-samstarfinu. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Til viðbótar við þá 15 kafla sem viðræður hafa þegar hafist um hefur samningsafstaða Íslands í fimm öðrum samningsköflum verið kynnt Evrópusambandinu …“

Þá eru eftir rúmlega tíu kaflar þar sem samningsafstaðan hefur enn ekki verið kynnt.

Þegar maður skoðar kaflann um framgang viðræðna segir á bls. 22:

„Frá upphafi hefur það verið markmiðið að hefja samningaviðræður sem allra fyrst um þá kafla þar sem grundvallarhagsmunir Íslands liggja. Reiknað er með að samningsafstaða í slíkum köflum verði kynnt Alþingi innan tíðar, …“

Árið 2009 leið, árið 2010 og árið 2011 leið. Við erum komin á vormánuði 2012 og við höfum ekki einu sinni mótað okkur samningsafstöðu í erfiðu köflunum, en samt er alltaf verið að klifa á því í þinginu að þetta séu kaflarnir sem við krefjumst að fá að ræða við Evrópusambandið sem allra fyrst. Og eins og ég segi, ég hygg að það hafi engin EES-þjóð verið jafnlengi að komast að niðurstöðu við Evrópusambandið. Hvers vegna er þetta að gerast? Hvers vegna er þetta svona? Er það vegna tregðu Evrópusambands megin? Nei, það er vegna þess að á Íslandi er ekki ríkisstjórn sem er samstiga í málinu. Á Alþingi er ekki raunverulegur meiri hluti fyrir öðru en því að styðja ríkisstjórnina, ekki fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Það er allt hlaðið fyrirvörum, allar yfirlýsingar um slíkt og vegna þess að mælingar sýna að stuðningur fer dvínandi við viðræðuferlið. Þetta er ástæðan. Heimatilbúið vandamál frá upphafi sem hefur leitt okkur áfram í þessa stöðu.

Það er meðal annars af þeirri ástæðu sem við í Sjálfstæðisflokknum höfum sagt: Það er ekki rétt á jafnveikum forsendum og hér er verið að gera að standa í viðræðum við Evrópusambandið. Við skulum gera hlé á viðræðunum, meta þetta mál frá grunni að nýju og láta síðan þjóðina ráða því, láta þjóðina ráða því hvort málinu verður haldið áfram. Ég hygg að Evrópusambandið mundi sýna þessu sjónarmiði mjög góðan skilning.

Komið hafa upp einstök mál á undanförnum vikum og mánuðum sem ástæða er til að staldra við í tengslum við aðildarviðræður við Evrópusambandið. Í fyrsta lagi er það undirbúningur að refsiaðgerðum vegna deilunnar um makrílveiðar.

Ég vék að því í andsvari áðan að það dylst engum að þær reglur sem nú eru í smíðum og ég hef hjá mér í drögum, sú smíði að þeim reglum hófst vegna makríldeilunnar, engum blöðum er um það að fletta. Hins vegar er þetta kynnt sem skjal sem almennt tekur á þeim vanda þegar ekki nást samningar um deilistofna.

Evrópusambandið hefur þegar talað nokkuð skýrt í þessum málum. Á fundi utanríkisráðherra fyrir skemmstu kom fram að ef ekki tækjust samningar við Íslendinga og Færeyinga væri það vilji þeirra að grípa til refsiaðgerða. Skömmu síðar eru þessi drög komin til umræðu. Í þeim drögum er að geyma heimildir fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að beita þá sem aðgerðirnar beinast að, í þessu tilviki gætu það verið við Íslendingar, mjög harkalegum refsiaðgerðum á viðskiptasviðinu.

Utanríkisráðherra sagði hér í framsögu sinni að það kynni að stangast á við alþjóðasamninga að beita svo harkalegum viðurlögum. En ætli það sé svo, þegar Evrópusambandið hefur farið í gegnum þessar reglur og velt þeirri spurningu fyrir sér, að hægt sé að treysta því að sú vörn muni halda? Er ekki líklegra, eftir að Evrópusambandið hefur komið reglunum á, að næst þegar sest verður niður við samningaborðið vegna makríldeilunnar muni þeir halla sér aftur í sætunum og segja við Íslendinga: Hvað ætlið þið að gera? Hvað hafið þið að bjóða? Boltinn er hjá ykkur. Ef þið komið ekki með lausn sem við metum sanngjarna þá er það þetta hér sem þið þurfið að horfa framan í. Sem getur verið allt frá viðskiptabanni við einstakar útgerðir, yfir í löndunarbann, almennt hafnarbann. Í raun og veru gætu þeir farið að loka á viðskipti með sjávarafurðir frá Íslandi inn í Evrópusambandið verði reglurnar lögfestar eins og ég hef kynnt mér þær.

Þetta er háalvarlegt mál sem ekki er rétt að gera lítið úr. Ég vil þakka hæstv. formanni utanríkismálanefndar fyrir að hafa tekið málið upp við forseta framkvæmdastjórnarinnar, Barroso, nú í vikunni þar sem hann spurði sérstaklega út í þetta og fékk þau svör, eins og ég skildi þau, að þessar reglur væru í smíðum til þess að liðka fyrir friðsamlegri lausn deilunnar, liðka fyrir því að samningar gætu tekist.

Þetta er sú taktík sem Evrópusambandið ætlar að beita. Ég segi fullum fetum: Verði slíkum refsiaðgerðum beitt er sjálfhætt í viðræðum við Evrópusambandið. Þá munu þær hvort eð er stöðvast. Ég hygg að utanríkisráðherrann viti það. Vonandi verður það þó ekki til þess að menn ætli að fara að gefa eftir sjálfsagðan og eðlilegan rétt okkar í viðræðum um lausn makríldeilunnar til þess eins að forðast beitingu þessara reglna. Það má ekki verða.

Það var jafnframt minnst á meðalgöngu Evrópusambandsins í dómsmálinu sem nú er rekið hjá eftirlitsstofnuninni vegna Icesave-samninganna. Það má nálgast málið eins og ráðherrann gerði hér áðan og segja: Þetta styrkir lagalega stöðu okkar í málinu. Það er erfitt að mótmæla því í sjálfu sér vegna þess að þetta gefur tækifæri fyrir okkur til að koma á framfæri mótmælum við þeim sjónarmiðum sem Evrópusambandið hyggst tefla þar fram sem við ella hefðum ekki getað gert samkvæmt þeim réttarfarsreglum sem um þetta gilda. Hins vegar er ekki hægt að horfa fram hjá hinu pólitíska eðli málsins og sögu þess þar sem Evrópusambandið hefur oft haft aðkomu. Fyrst haustið 2008 hafði Evrópusambandið aðkomu að því að leiða saman hinar deilandi þjóðir þegar fyrir Evrópusambandinu fóru Frakkar og sú sem nú er orðin stýra yfir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafði milligöngu um það að koma á hinum sameiginlegu viðmiðum sem kölluð voru á ensku „agreed guidelines“.

Maður veltir því fyrir sér eftir á að hyggja hvort það hafi verið mikið hlutleysi af Evrópusambandsins hálfu við þessa meðalgöngu þegar nú er komið í ljós að Evrópusambandið segist hafa beina hagsmuni af niðurstöðum málsins, það er það sem birtist í skjölunum þegar Evrópusambandið stefnir sér núna inn. Í hvert sinn sem okkur fannst sem Evrópusambandið væri að beita sér gegn íslenskum hagsmunum, til dæmis hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða með því að samræma sjónarmið á vettvangi, við skulum segja fjármálaráðherranna á ECOFIN-fundum vegna þess að Evrópusambandið hefði sameiginlega hagsmuni af niðurstöðu Icesave-málsins, þá sögu þessir menn alltaf við okkur: Nei, hvað — það mundi aldrei hvarfla að okkur, þetta er tvíhliða deila, þetta er tvíhliða deila, við komum ekki nálægt þessu.

Nú er búið að svipta hulunni af því sem raunverulega var að gerast á bak við tjöldin. Það skiptir máli. Menn eiga ekki að gera lítið úr því. Það er í þessu pólitíska samhengi sem það er stórmál að Evrópusambandið skuli stefna sér inn í málið og segja: Við höfum — og það þýðir — við höfum alltaf haft beina hagsmuni af niðurstöðu í Icesave-málinu. Þannig hafa þeir haft hagsmuni af því að einangra okkur Íslendinga. Við höfum fundið fyrir því svo sannarlega.

Ég spurði til dæmis að því á Norðurlandaráðsþingi á sínum tíma hvernig á því stæði að allar Norðurlandaþjóðirnar hefðu farið að gera þessa samninga að skilyrði fyrir fyrirgreiðslu hjá okkur? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að þær voru undir þrýstingi frá þeim þjóðum sem eru með þeim í Evrópusambandinu, eins og t.d. Svíar og Finnar? Þetta skiptir máli og þessu verður að halda til haga í samhengi við meðalgönguna fyrir ESA.

Ég vil nefna eitt atriði sem tekið er upp í skýrslunni sem við erum að ræða. Í innganginum segir ráðherrann orðrétt, með leyfi forseta:

„Enginn, allra síst þeir sem eru á móti aðild, mega heldur gleyma að Alþingi veitti þjóðinni þann sjálfsagða rétt að eiga síðasta orðið í Evrópumálunum.“

Síðan segir nokkru síðar að málið verði lagt fyrir þjóðina. Gott og vel.

Ég hygg að ráðherrann hafi tekið of mikið upp í sig í inngangsorðunum með því að segja að Alþingi hafi ákveðið að þjóðin ætti síðasta orðið. Það sem hefur verið ákveðið er að hér fari fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla ef og þegar samningar hafa tekist.

Það hefur alltaf staðið í mér að skilja hvernig sá meiri hluti sem að þessu stóð hyggst hrinda þeim vilja í framkvæmd sem hugsanlega birtist í hinni ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, vegna þess að svo sannarlega bindur sú niðurstaða ekki þingmenn sem hafa aðra sannfæringu en þar verður að finna. Þetta kann að verða mjög flókin staða sem er rétt að ræða í tíma. Hér á Alþingi kann að vera meiri hluti gegn samningunum — gegn samningunum — hvað sem líður niðurstöðunni í slíkri ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Er verið að segja með þessum orðum í innganginum og almennt í umræðu um þennan möguleika að þingmenn eigi að láta af sannfæringu sinni og gefa hana frá sér? Ég segi: Þetta ferli er vanhugsað og við hefðum aldrei átt að velja þá leið að fara með samninginn fyrst í þjóðaratkvæði áður en hann kemur hingað inn í þingið. Það er forsenda og hefur hvarvetna verið forsenda fyrir því að ríki gangi inn í Evrópusambandið að þjóðþingin séu fylgjandi því. Það getur síðan verið endanlega í höndum þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, en þjóðþingin hafa aldrei verið með meiri hluta gegn aðild að Evrópusambandinu en þurft að lúta í lægra haldi fyrir atkvæðagreiðslu meðal þjóðarinnar. Ég hygg að það hafi bara aldrei gerst. Þetta er eitt flækjustigið sem boðið hefur verið upp á í málinu og skiptir miklu fyrir framhaldið náist yfir höfuð samningar.

Ég vék jafnframt að því í andsvari mínu að gríðarlega mikil átök væru innan Evrópusambandsins. Þau birtast meðal annars í orðum forseta Evrópuþingsins frá í þessari viku þar sem hann segir að raunveruleg hætta sé á því að Evrópusambandið liðist í sundur, í fyrsta skipti sé raunveruleg hætta á því. Utanríkisráðherra segir að þetta sé til vitnis um gamalkunnug átök, en þau eru engu að síður alvarleg. Þau fara vaxandi. Þau hafa vaxið mjög eftir að evruvandinn komst upp á yfirborðið vegna þess að þar er eina lausnin, eina raunhæfa lausnin fyrir þær þjóðir sem eru inni í evrusamstarfinu, að samþætta aðgerðir og auka samrunann. Það er eina leiðin, ella mun evrusamstarfið liðast í sundur.

Það er líka eina leiðin á svo fjölmörgum öðrum sviðum sem er ástæða þeirrar kröfu sem uppi er höfð, m.a. af Þjóðverjum, Frökkum og fleirum, að halda samþættingarferlinu áfram. Utanríkisráðherra virtist taka því fagnandi að ekki hefðu öll áform um samþættingu, til dæmis vegna evrunnar, gengið eftir heldur hefði verið dregið úr á síðustu metrunum, en það er kannski ekki ástæða til þess að fagna því. Kannski er það nefnilega svo fyrir þá sem (Forseti hringir.) á annað borð vilja vera með í evrunni, að þetta er eina leiðin. Þess vegna hefði þurft að ganga alla leið. En þetta er hins vegar raunveruleiki sem þeir standa fyrir að það er ekki hægt. Það mun þá bara hafa þær afleiðingar að evrusamstarfið mun liðast í sundur og við (Forseti hringir.) getum ekki annað en tekið þá alvarlegu stöðu sem evran er komin í og þessar miklu hræringar og breytingar með inn í vangaveltur um það hvort Ísland á (Forseti hringir.) erindi inn í þennan félagsskap.