140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[12:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held nú engu að síður að hv. þingmaður verði að viðurkenna að regluverk Evrópusambandsins er breytt frá því á miðjum 10. áratugnum að því er varðar stækkunarmál og viðræður við umsóknarríki. Bæði er það, eins og hann reyndar nefndi sjálfur, að kaflarnir sem samið er um eru fleiri, löndin eru síðan mun fleiri sem í hlut eiga og ákveðið ferli var innleitt þegar stækkunin var sem mest, 10 ríkja stækkunin. Þá var innleitt ákveðið ferli sem við síðan lendum inni í. Þó að vissulega sé það þannig að við höfum þegar innleitt mjög marga kafla sem þau ríki höfðu ekki gert er ákveðið ferli sett í gang.

Þessu ferli er reyndar ágætlega lýst í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar frá árinu 2009. Þess vegna hefur það jafnan komið mér á óvart þegar menn láta það koma sér á óvart hvernig ferlið er, vegna þess að því er ágætlega lýst þar. Ef menn fara yfir þann texta sjá þeir nákvæmlega hverju er gert ráð fyrir í því efni.

Síðan vil ég bara segja varðandi það sem hv. þingmaður sagði um heitstrengingar hér í þingsal um að ljúka viðræðuferlinu á stuttum tíma innan kjörtímabils. Einhverjir kunna að hafa lýst þeim sjónarmiðum — ég held að þingmaðurinn muni ekki finna til að mynda neinar yfirlýsingar af minni hálfu hvað það snertir að það gæti gerst. Vissulega höfðum við vonir til þess að hægt væri að byrja á þungu köflunum sem allra fyrst. Ég hef allan tímann verið þeirrar skoðunar að það þyrfti að gera vegna þess að ég hef gert mér grein fyrir því að þeir munu taka lengstan tíma í viðræðum. Það eru vissulega vonbrigði, en af minni hálfu hefur því aldrei verið haldið fram að hægt væri að ljúka þessum aðildarviðræðum innan kjörtímabilsins þó að það sé jafnframt mín skoðun að æskilegt hefði verið að gera það. En ég hef aldrei haldið hinu fram, að það væri eitthvað sem menn gætu gengið að sem vísu.