140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[13:51]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég man rétt er það stefna Framsóknarflokksins að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið strax. Ég velti því fyrir mér hvað eigi þá að taka við samkvæmt stefnu Framsóknarflokksins. Ég hef ekki fengið skýra mynd af því og vil því biðja hv. þingmann að skýra það aðeins út fyrir okkur.

Hvaða framtíðarsýn hefur Framsókn varðandi t.d. það að losa okkur við gjaldeyrishöftin? Hvaða leiðir vill Framsókn fara til að losa okkur við þessa 1 þús. milljarða? Þetta er ekki viðbótarskuld við Icesave-skuldina, heldur eru í þessari snjóhengju útborganir úr þrotabúi Landsbankans sem munu fara í að greiða niður hina svokölluðu Icesave-skuldbindingu.

Virðulegi forseti. Ég vil biðja hv. þingmann um að gefa okkur aðeins innsýn í framtíðarstefnu Framsóknar þegar búið er að draga aðildarumsóknina til baka. Hvers konar efnahagsstefna verður þá við lýði og hvernig á að afnema gjaldeyrishöftin og losa okkur við þessa snjóhengju?