140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[14:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram um utanríkismál og þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu hans um utanríkis- og alþjóðamál sem er að finna á þskj. 1229 og einnig fyrir munnlega framsögu hans með skýrslunni. Þetta er yfirgripsmikil skýrsla eins og hér hefur þegar komið fram og farið er yfir mörg mál sem varða samskipti okkar á alþjóðavettvangi eins og eðlilegt er. Í þessari umræðu er kannski ekki tími til að tæpa á nema nokkrum meginatriðum. Eðlilega hefur Evrópusambandsumsóknin fengið mikið vægi í umræðunni enda eitt af umfangsmestu verkefnunum sem við erum að takast á við í utanríkismálum okkar. Ég get enn fremur sagt að það er jafnframt eitt af þeim málefnum sem tekið hefur hvað mestan tíma í starfi utanríkismálanefndar á liðnu ári. Ég ætla þó ekki fjalla eingöngu um ESB-umsóknina, heldur reyna að komast yfir fleiri mál sem eru til umfjöllunar í skýrslunni en ætla engu að síður að byrja á því máli sem lýtur að samningaviðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Það er ljóst að um þetta mál eru afar skiptar skoðanir í íslensku samfélagi og í stjórnmálaflokkunum flestum. Allt frá því sjónarmiði að vera eindregið andsnúinn því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og andsnúinn því að Ísland eigi yfirleitt í viðræðum um aðild að Evrópusambandinu, yfir í það að á sumum bæjum er ríkur stuðningur við það að Ísland fari í Evrópusambandið. Þarna á milli kunna að vera ýmis sjónarmið uppi líka og ég hygg að ég geti sagt fyrir mína parta að ég sé staðsettur einhvers staðar þarna á milli. Ég er og minn flokkur er þeirrar skoðunar að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins en hins vegar eru skiptar skoðanir um aðildarviðræðuferlið, hvort við ættum yfirleitt að standa í því eða ekki. Ég hef margoft lýst þeirri skoðun minni að ég telji að ljúka eigi því aðildarviðræðuferli sem Alþingi ákvað að setja af stað og bera niðurstöðuna undir þjóðina í allsherjarþjóðaratkvæðagreiðslu þegar hún verður fengin. Þetta hefur verið skoðun mín alveg frá því málið var afgreitt í þinginu og reyndar lengur, því að í samþykkt landsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í mars 2009 var mörkuð stefna varðandi aðildina að ESB í þremur meginpunktum. Í fyrsta lagi að flokkurinn teldi hagsmunum Íslands betur borgið utan ESB en innan. Í öðru lagi að flokkurinn vildi að fram færi opin og lýðræðisleg umræða í samfélaginu um kosti og galla ESB-aðildar. Og í þriðja lagi að niðurstöðu málsins yrði ráðið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef litið svo á að ein besta leiðin til að fá opna og lýðræðislega umræðu um kosti og galla aðildar væri það viðræðuferli sem við eigum í og hefur ekki skort á að einmitt það ferli hefur orðið tilefni til mikillar umræðu bæði hér á þingi og í samfélaginu um ESB og kosti þess og galla. Ég tel fínt að slík umræða eigi sér stað og menn skiptist á skoðunum og leiði fram rök, kafi dýpra í einstök málefni og móti sér svo afstöðu. Ég tel því að sú stefna sem hér er fylgt sé í góðu samræmi við þá samþykkt sem landsfundur VG gerði í aðdraganda kosninganna 2009 og varð síðar niðurstaða í samningaviðræðum flokkanna tveggja sem nú mynda ríkisstjórn. En eins og ég segi eru vissulega skiptar skoðanir um þetta og það er í sjálfu sér ekkert athugavert við að skoðanir séu skiptar í svo ríku hagsmunamáli.

Hér hefur talsvert verið vikið að því hvernig standa eigi að þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál og hvort hún geti orðið bindandi eða hvort hún verði eingöngu ráðgefandi. Nú er það svo að í stjórnarskrá okkar eru fyrirmæli um hvernig eigi að fara með breytingar á stjórnarskránni. Varðandi framsal á ríkisvaldi eru þar ákvæði um að Alþingi taki slíkar ákvarðanir. Í umræðu um endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur það sjónarmið hins vegar verið uppi að slíkt ætti að binda, a.m.k. yrði að taka framsal á ríkisvaldi í umtalsverðum mæli sem helgaðist af þátttöku okkar í ríkjabandalagi eins og Evrópusambandið er með bindandi ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel að það sé í sjálfu sér ágæt leið að binda það í stjórnarskrána en breytir ekki hinu að ég tel einnig að niðurstöður samningaviðræðna eigi að leggja fyrir dóm þjóðarinnar þegar þær liggja fyrir í samræmi við það sem lagt er upp með í þingsályktuninni frá 2009 og í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Þar er ferlinu, viðræðuferlinu, mjög ítarlega lýst.

Mér finnst menn stundum segja í almennri umræðu að ferlið komi þeim á óvart, það sé ekki eins og lagt hafi verið upp með, menn hafi lofað því að viðræðum yrði lokið á einu og hálfu ári eða tveimur eða á kjörtímabilinu. (Gripið fram í.) Ég hef aldrei gert það og ég tel að þingmenn muni ekki finna þess stað. Það sem ég hef sagt er að ég teldi æskilegt að fara sem fyrst í viðræður um stærstu og umfangsmestu kaflana og teldi æskilegt að viðræðunum yrði lokið á kjörtímabilinu, en ég hef að sjálfsögðu aldrei gefið nein loforð um að það yrði niðurstaðan enda ekki í mínu valdi að gera það. Ég tel að þegar annað er fullyrt séu menn að segja meira en innstæða er fyrir. (Gripið fram í.) Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég teldi æskilegt að viðræðunum gæti verið lokið á kjörtímabilinu en í því felst ekkert loforð um að sú verði niðurstaðan vegna þess að það er ekki í mínu valdi að gefa slíkt loforð.

Ég vil líka nefna að það er skiljanlegt að Evrópusambandskaflinn í skýrslu utanríkisráðherra sé fyrirferðarmikill í umræðunni og er að mínu viti óheppilegt að önnur utanríkismál líða dálítið fyrir það. Önnur utanríkismál eiga að sjálfsögðu skilið að fá ítarlega og góða umræðu á vettvangi Alþingis. Í nefndaráliti utanríkismálanefndar frá 2009 er viðruð sú hugmynd að utanríkisráðherra flytji sérstaka skýrslu um framgang aðildarviðræðnanna um aðild að Evrópusambandinu. Ég tel reyndar í ljósi sjónarmiða sem hér hafa komið fram, og komu meðal annars fram í umræðu í morgun og ég er í raun sammála, að það ætti að fara fram sérstök umræða um Evrópusambandsferlið, stöðu viðræðnanna og efnislegt innihald.

Ég hvet því eindregið til þess að slíkri umræðu sé komið á á vettvangi Alþingis. Ég tel reyndar, eins og margir í morgun, að það hefði verið heppilegra að sú umræða hefði farið fram fyrir þessa umræðu en þetta er hins vegar ferli sem er í sífelldum gangi þannig að það er ekkert að því að slíkar skýrslur séu fluttar oftar en einu sinni eftir því sem viðræðunum vindur fram. Það vildi ég segja sérstaklega um þetta mál.

Ég ætla að víkja aðeins að EES-málum líka og tengja það Evrópusambandsumræðunni, en EES-mál hafa verið mjög fyrirferðarmikil í verkefnum og vinnu utanríkismálanefndar á því tímabili sem hér er til umfjöllunar. Við höfum tekið til umfjöllunar mjög margar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar og unnið að innleiðingu á tilskipunum sem heyra undir EES-mál. Eins og kunnugt er má segja að stærsti hlutinn af regluverki Evrópusambandsins, að minnsta kosti í tölum talið, talað er um að það séu allt að 20 af rúmlega 30 köflum sem við er að glíma í aðildarviðræðunum, sé að öllu eða að verulegu leyti undir EES-samningnum. Það segir okkur að Ísland hefur nú þegar á undanförnum árum innleitt mjög mikið af regluverki Evrópusambandsins og lagað sig að þeim aðstæðum sem þar eru, sem helgast af meginmarkmiðum EES-samningsins um hið svokallaða fjórfrelsi. Um það voru að sjálfsögðu skiptar skoðanir á sínum tíma hvort það væri rétt leið að fara og hvort efna hefði átt til þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál á sínum tíma en við erum stödd þar sem við erum í því máli og verðum að vinna út frá því.

Ég nefni þetta ekki síst vegna þess að ég tel að í umræðunni um fullveldismálin, sem m.a. lúta að aðild að Evrópusambandinu, þurfi að draga EES-samninginn inn í þá umræðu af því að Ísland er nú þegar að afsala sér eða framselja ríkisvald í verulegum mæli í gegnum EES-samninginn. Þess vegna er það mitt viðhorf þegar talað er um að samskiptin við Evrópu snúist fyrst og fremst um fullveldismál Íslands að menn verði að spyrja sig þeirrar spurningar jafnframt: Erum við kannski komin svo langt í EES-samningnum að setja þurfi spurningarmerki við það hvort innleiðingin á tilskipunum Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn sé á vissum sviðum komin út fyrir það sem stjórnarskráin heimilar og er túlkað sem framsal á ríkisvaldi?

Mér finnst því alveg gilt sjónarmið í þessari umræðu, ef menn telja að í aðild að ESB felist svo mikið framsal á ríkisvaldi að það sé óviðunandi, að hið sama ætti að gilda um EES-samninginn og þá ættu menn að taka afleiðingum af því eða fylgja því eftir og segja að þá þyrftum við að losa okkur undan EES-samningnum. Það er umræða sem hefur ekki farið mikið fyrir hér á landi en í nýlegri skýrslu sem unnin var í Noregi um EES og er kölluð Seierstad-skýrslan er fjallað mjög mikið um ávinninginn og má segja afleiðingarnar af EES-samningnum. Ég hvet þingmenn eindregið til að kynna sér meginniðurstöður í þeirri skýrslu hvað það varðar.

Af nokkrum öðrum málum sem ég vildi nefna hér í sambandi við utanríkismálin vil ég leggja áherslu á norðurslóðamálin sem fengu ítarlega umfjöllun á vettvangi utanríkismálanefndar þegar þar var til umfjöllunar þingsályktunartillaga frá ríkisstjórninni um norðurslóðastefnu. Það er engum blöðum um það að fletta að norðurslóðirnar vekja æ meiri áhuga og athygli víða í alþjóðasamfélaginu. Mörg ríki láta sig þau mál varða, ekki bara ríkin átta sem eiga aðild að Norðurskautsráðinu, heldur mörg önnur ríki sem hafa lýst áhuga á einhvers konar aðild eða áheyrnaraðild að því. Jafnframt er ljóst að þær breytingar sem eru að verða af völdum loftslagsbreytinga og möguleikar til að nýta norðurslóðirnar bæði sem siglingaleiðir en einnig vegna auðlindanýtingar, í þeim tækifærum felast líka ýmsar ógnir sem við sem þjóð sem byggir allt sitt á sjávarauðlindinni í Norður-Atlantshafi þarf að vera vakandi gagnvart. Því er mjög mikilvægt að við höfum markað okkur stefnu í málefnum norðurslóða sem við gerðum með þingsályktun hér á síðasta ári.

Þriðja málið sem ég vildi nefna sérstaklega er viðurkenningin á Palestínu sem sjálfstæðu ríki. Ég tel eins og hæstv. utanríkisráðherra að það hafi verið mjög merkileg ákvörðun sem Alþingi tók í því efni og ég er mjög ánægður með að um hana skapaðist býsna breið samstaða á Alþingi og að enginn þingmaður lagðist gegn því að Ísland tæki þetta skref. Ísland hefur áður tekið mikilvæg skref af þessum toga eins og þegar Ísland var fyrsta ríki til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þriggja, en Ísland var líka fyrsta ríki til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu og Svartfjallalands svo dæmi séu tekin. Við höfum markað braut í þessu efni og eigum að gera það óhikað, eins og við gerðum varðandi málefni Palestínu, og ég hef orðið var við að sú afstaða og það frumkvæði sem Ísland tók í því efni hefur vakið verðskuldaða athygli á alþjóðavettvangi.

Þá vil ég einnig víkja að þróunarsamvinnumálum. Á árinu 2011 var lögð fram á Alþingi á grundvelli nýrra laga um þróunarsamvinnu fyrsta þingsályktunartillagan um stefnumótun í alþjóðlegri þróunarsamvinnu af Íslands hálfu. Hún fékk sömuleiðis mikla umfjöllun á vettvangi utanríkismálanefndar og margir komu að þeirri vinnu og komu til fundar við nefndina. Það er rétt sem kemur fram í skýrslu utanríkisráðherra að utanríkismálanefnd sá ástæðu til þess að hnykkja á markmiðum um aukningu framlaga Íslands til þróunarsamvinnu. Hæstv. utanríkisráðherra orðar það svo í skýrslu sinni og trúi ég því að hann hafi þar sjálfur haldið á penna, a.m.k. í þessum inngangsorðum þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Þingið sló meira að segja undir nára og vildi hraða aukningu fjárframlaga til þróunarsamvinnu. Sæll er sá ráðherra sem við slíkan viðurgjörning býr á sínu þingi.“

Það er auðvitað mjög ánægjulegt að hæstv. utanríkisráðherra var ánægður með þær breytingar sem voru gerðar á þessu máli í meðförum þingsins og utanríkismálanefndar. Ég er þeirrar skoðunar að Ísland sé, þrátt fyrir áföll í efnahagsmálum á umliðnum árum, með best stæðustu ríkjum í heimi og því ber að sjálfsögðu í hlutfalli við stærð sína skylda til að leggja sitt af mörkum til að draga úr fátækt og misskiptingu í heiminum, draga úr hungursneyð og að sjálfsögðu að reyna í gegnum þróunarsamvinnu að stuðla að uppbyggingu og friði í heimshlutum sem þurfa sannarlega á því að halda. Ég er því stoltur af því að Ísland og Alþingi skyldi hafa tekið þau skref við afgreiðslu á þingsályktunartillögu um þróunarsamvinnu.

Loks vildi ég, herra forseti, nefna hér aðeins mál sem ekki hafa komið mikið til umræðu um þessa skýrslu, a.m.k. ekki enn sem komið er, og það varðar öryggis- og varnarmálin og meðal annars aðgerðir Atlantshafsbandalagsins í tengslum við þróun mála í Norður-Afríku á síðasta ári. Ég held að flestir hafi verið samdóma um að þær hræringar sem fóru um Norður-Afríku á síðasta ári hafi verið til vitnis um mikla vakningu á þessum slóðum, lýðræðisvakningu sem alþjóðasamfélagið vildi gjarnan hjálpa til við að koma á laggirnar. Ég er þeirrar skoðunar að í þessum efnum sé mikilvægt að leikreglur alþjóðasamfélagsins séu virtar og þær hafðar sem útgangspunktur. Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að ákvarðanir sem lúta að því að alþjóðasamfélagið gangi inn í mál af þessum toga séu byggðar á samþykktum Sameinuðu þjóðanna og það var ástæðan fyrir því að ég var þeirrar skoðunar að það væri rétt að gera ekki athugasemd við að Atlantshafsbandalagið færi inn í Líbíu vegna þess að það byggði á umboði og samþykkt Sameinuðu þjóðanna. Síðan er það aftur annað mál að miklar umræður urðu um hvort hernaðaraðgerðir Atlantshafsbandalagsins væru farnar út fyrir það umboð sem Sameinuðu þjóðirnar veittu og ég tel að full rök hafi verið fyrir þeim sjónarmiðum sem komu upp í því efni.

Við eigum að styrkja okkar starf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu þegar kemur að málum af þessum toga. Ég er ekki trúaður sjálfur á mátt eða afkastagetu eða árangur hernaðarbandalaga og er almennt ekki stuðningsmaður þess að Ísland sé aðili að hernaðarbandalagi. Ég tel miklu heillavænlegra að reynt sé að leiða til lykta svæðisbundnar deilur sem upp koma af þeim aðilum sem helst eiga hagsmuna að gæta og á grundvelli alþjóðastofnana eins og Sameinuðu þjóðanna og ÖSE. Ég er þess vegna ánægður með að skipuð hefur verið sérstök nefnd, þjóðaröryggisnefnd, sem á að marka stefnu í þjóðaröryggismálum. Ég tel brýnt að við gerum það, Íslendingar. Ýmislegt hefur gerst hefur í þeim efnum á undanförnum árum, t.d. brottför bandaríska herliðsins, sem kallar á það að við mörkum okkur stefnu í þessum málum. Ég bind auðvitað vonir við að náðst geti nokkuð breið pólitísk samstaða um þá stefnumótun. Því miður hafa þessi mál klofið íslenska þjóð um áratugaskeið. Ég er alla vega vongóður um að við getum markað okkur stefnu, Íslendingar, sem breið samstaða ríkir um.

Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir að það eru skiptar skoðanir um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og það er meiri hluti fyrir því, a.m.k. á Alþingi, að við séum þar þó að ég sé annarrar skoðunar, en ég er líka jafnframt þeirrar skoðunar að miðað við þá staðreynd að við erum aðilar að því bandalagi eigum við að sjálfsögðu að reyna að beita áhrifum okkar til góðs á þeim vettvangi eins og hægt er og vera gagnrýnin á það sem við teljum að sé röng stefna og það hefur ekki verið skortur á tilefnum til að gagnrýna Atlantshafsbandalagið. Ég tel reyndar að tími hernaðarbandalaga sé liðinn og að takast eigi á við svæðisbundin átök og aðgerðir sem þarf að fara í til að tryggja frið og heill þjóða á vettvangi alþjóðastofnana eins og ég hef þegar nefnt og (Forseti hringir.) nefndi þar Sameinuðu þjóðirnar og ÖSE.

Virðulegur forseti. Þetta voru nokkur mál sem ég hljóp á við þessa umræðu sem ég tel mikilvægt að hafa í huga, en ég ítreka jafnframt það sem ég (Forseti hringir.) sagði að ég tel að aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið verðskuldi sérstaka umræðu og það fyrr en síðar því að þau eru (Forseti hringir.) sannarlega fyrirferðarmikil.