140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[14:31]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefði þurft að vera í andsvari við hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon vegna þess að hann er fyrst og fremst að spyrja um afstöðu hans og orð sem hann lét falla á tilteknum tímapunkti við tilteknar aðstæður. (Gripið fram í.)

Eins og menn vita ber að beina andsvörum að ræðumanni og ekkert um þetta efni kom fram í ræðu minni þannig að þingmaðurinn fer um víðan völl og krefur mig svara við ummælum sem aðrir kunna að hafa látið falla (ÁsmD: Trúverðugleika flokksins?) við tilteknar aðstæður.

Fyrir mína parta fór ég rækilega í gegnum þetta Evrópusambandsmál þegar það var til umfjöllunar 2009 í utanríkismálanefnd, eins og þingmaðurinn veit, og ég sannfærðist um það við þá vinnu að rétt væri, m.a. á grundvelli þeirrar afstöðu sem við höfðum tekið í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að láta reyna á kosti og galla Evrópusambandsaðildarinnar, fá fram góða og ítarlega, opna og lýðræðislega umræðu í samfélaginu og leggja fram niðurstöðu úr viðræðum við Evrópusambandið fyrir þjóðina. (Forseti hringir.) Við áskildum okkur allan rétt í því efni, eins og þingmaðurinn veit, við myndun ríkisstjórnarinnar og í umræðum um þetta mál á þingi á (Forseti hringir.) þeim tíma að tala gegn aðildinni ef okkur (Forseti hringir.) byði svo við að horfa í samræmi við stefnu okkar.