140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[14:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og ég vil ítreka það varðandi hernaðaraðgerðir NATO í Líbíu að það var mikilvægt fyrir mig og marga í mínum flokki að ákvörðun um það var tekin á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það var ekki bara rætt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna heldur var tekin formleg ákvörðun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Sameinuðu þjóðirnar veittu ákveðið umboð með tilteknum skilyrðum og skilmálum. Síðan varð umræðan í kjölfarið um það hvort aðgerðirnar sem NATO fór í væru komnar út fyrir það umboð og ég tel að rök hafi verið fyrir þeirri gagnrýni.

Ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna var eftir því sem ég best veit rædd í ríkisstjórn á sínum tíma. Það var hins vegar ekki sérstök umræða um það þegar kom að ákvörðuninni á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og það var gagnrýnt, meðal annars af ráðherrum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og eftir því sem ég best veit einnig bókað um það á ríkisstjórnarfundi. Ég tel mig vita að það hafi verið gert. (Forseti hringir.) Ég sit ekki í ríkisstjórn, eins og hv. þingmaður veit, þannig að þetta er bara það sem ég tel mig vita.