140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[14:40]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir þessa fyrirspurn. Það er alveg rétt að ég gerði þetta fullveldisframsal sérstaklega að umræðuefni. Hún steig reyndar næsta skref á eftir í rökræðu minni eða máli mínu um þetta. Ég sagði í sjálfu sér ekki að vegna þess að umtalsvert fullveldisafsal væri í EES-samningnum væri lítill munur á því og ESB. Hv. þingmaður leyfði sér að fara heldur lengra í þessari umræðu en ég gaf tilefni til.

Nei, ég tel að heilmikill munur sé á því fullveldisframsali sem felst í aðild að Evrópusambandinu og því sem felst í EES-samningnum. Ég var bara að vekja máls á því að í EES-samningnum sjálfum er heilmikið fullveldisframsal fólgið og við höfum verið að glíma við það hér í þinginu og á vettvangi utanríkismálanefndar að ræða hvort ýmsar tilskipanir sem eru að koma í gegnum EES, og við erum skuldbundin til að taka inn í íslenskan rétt, séu jafnvel þess eðlis sumar hverjar orðnar (Forseti hringir.) að þær fari nú þegar út fyrir heimildir stjórnarskrárinnar; og nýlega vorum við einmitt að fjalla um mál af þeim toga. (Forseti hringir.) Mér finnst mjög mikilvægt að menn taki svona akademíska umræðu, það má kannski kalla það það, um fullveldisframsalið í þessu ljósi.