140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:00]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki í þeim flokki sem kallast aðildarsinnar en ég er heldur ekki á móti aðild að ESB. Ég hef sveiflast fram og til baka í þessu máli í gegnum árin eftir því sem ég hef reynt að meta hverjir hagsmunir Íslands væru í því. Niðurstaða mín er einfaldlega sú að það er ekki hægt að gera út um það hvar hagsmunir Íslands liggja fyrr en aðildarviðræðum er lokið. Það er bara staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Óskhyggja hvers og eins í því máli, hvorum megin hryggjar sem þeir eru, breytir engu um það. Við vitum ekki hverjir hagsmunir Íslands eru fyrr en upp verður staðið að loknum aðildarviðræðum, fyrir utan að búið er að deila um þetta mál hér í 20 ár og það að ætla sér að kippa því til baka á miðri leið og halda áfram þeim deilum í önnur 20 ár er vont fyrir íslenskt samfélag. Það er vont að hrifsa þetta mál frá þjóðinni sem á að sjálfsögðu sjálf að taka ákvörðun um það, það á ekki að vera ákvörðun einstakra þingmanna eða þingflokka. (Forseti hringir.) Það er þess vegna sem ég styð það eindregið að aðildarviðræðurnar verði kláraðar.