140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það hefði verið eðlilegast að fram hefði farið þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál áður en sótt var um aðild. Nú er sú staðreynd ljós að Samfylkingin vill Evrópusambandsaðild meira en nokkuð annað og hv. þingmaður kallaði eftir einhverju öðru plani varðandi utanríkisstefnu. Það er engin von til þess að slíkt fari í gang meðan hæstv. utanríkisráðherra og hv. Samfylking fá ráðið þar um og ég tek undir með hv. þingmanni hvað það snertir.

Um síðustu áramót voru nokkrar umræður um það að þingflokkur Hreyfingarinnar væri hugsanlega að verða aðili að stjórnarsamstarfinu og Samfylkingin hygðist þannig styrkja stjórnarsamstarfið og þessa Evrópuvegferð. Í fréttum í þessari viku kom fram hjá Hreyfingunni, mig langar að lesa það, með leyfi frú forseta, að hún boði að „þau muni styðja vantrauststillögu á hendur ríkisstjórninni ef ekki verður komið til móts við kröfur flokksins í nokkrum málaflokkum, þar með talið í skuldamálum heimila“.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um, sem tengist þessu máli, í ljósi þess að Samfylkingin vill þetta fremur en nokkuð annað er: Er Hreyfingin í einhvers konar viðræðum við ríkisstjórnina um stuðning við hana (Forseti hringir.) og þar af leiðandi hennar utanríkisstefnu í skiptum fyrir einhver önnur mál? Má lesa það út úr þessari frétt? Getur hv. þingmaður aðeins farið yfir þetta (Forseti hringir.) hér fyrir okkur?