140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og tek undir með honum, ég vona að það gefist tilefni til umfjöllunar í sambandi við þjóðaröryggisstefnu sem mun koma til umræðu í þinginu. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir leiðir einmitt þá nefnd. En ég tel það umhugsunarefni að við sem lítið sjálfstætt ríki og aðili að mörgum alþjóðastofnunum skulum í raun ekki geta einbeitt okkur í opinberri umræðu að öðru en karpi um ESB. Ég fagna mjög þeim orðum þingmannsins að við lítum aðeins út fyrir túngarðinn heima í pólitísku karpi og förum að ræða af alvöru um þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi.

Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og þá vildi ég vita hvort þingmaðurinn telji þetta eðlilegt fyrsta skref í þessari umræðu eða hvort hann telji óeðlilegt að áður en (Forseti hringir.) umræður hefjast skulum við þegar vera búin (Forseti hringir.) að taka ákvörðun sem þessa.