140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:17]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ef það hefur ekki komið skýrt fram þá styð ég ekki að aðildarviðræðum verði hætt. Ég set mig hins vegar ekki á móti því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það. Það er ekki sama málið.

Hvað varðar plan B er Dögun einfaldlega ekki komin með stefnuskrá. Hún er komin með fimm eða sex atriði í svokallaðri kjarnastefnu og það eina sem talað er um þar í utanríkismálum er að ljúka eigi aðildarviðræðum að Evrópusambandinu nema þjóðin taki ákvörðun um annað í millitíðinni. Hvað varðar stefnuskrá Dögunar í efnahagsmálum eru að fara af stað málefnahópar á vegum Dögunar til að útbúa stefnuskrá þess flokks. Ég er sjálfur ekki aðili að neinum slíkum hóp og ég veit ekki enn þá um hvað þeir munu fjalla en það er bara verkefni sem er í smíðum og stefnuskráin er ókláruð. Þar af leiðandi er plan B ekki enn þá á kortinu, en það verður vonandi til staðar þegar (Forseti hringir.) fer að draga að kosningum, enda veitir ekki af.