140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru náttúrlega óendanlega margar spurningar. (ÁsmD: Þær voru þrjár.) — Nei, þær voru nú svolítið fleiri en það.

Fyrst varðandi þjóðernishyggjuna og það allt. Það er ekkert launungarmál að þeir sem eru fylgjandi aðild að Evrópusambandinu með góðum samningi — það þarf alltaf að taka fram þann fyrirvara — eru hvað eftir annað í umræðunni vændir um að vera ekki málsvarar hagsmuna Íslendinga. Það kalla ég ákveðið þjóðernisspil.

Ég legg áherslu á það að ég tel aðild að Evrópusambandinu með góðum samningi vera hagsmunamál Íslands sem sjálfstæðrar þjóðar þannig að ég tala um þetta sem Íslendingur. Þegar kemur að einhliða upptöku annars gjaldmiðils (ÁsmD: Tvíhliða.) — já, hv. þingmaður verður að hafa það á hreinu hvort þetta er einhliða eða tvíhliða, (ÁsmD: Ég sagði tvíhliða.) já, en þú sagðir líka einhliða. Alla vega tel ég að sú leið að taka upp gjaldmiðil annars ríkis án þess að hafa aðild að seðlabanka þess ríkis feli í sér — og nú tala ég sem Íslendingur og mér er annt um hagsmuni þjóðarinnar — miklu meira og óskýrara afsal á sjálfstæði og fullveldi en aðild að myntsamstarfi sjálfstæðra Evrópuríkja mundi nokkurn tímann fela í sér.

Varðandi þátttöku í Evrópska seðlabankanum er mér umhugað um að reyna að koma í veg fyrir að framtíðin á Íslandi verði þannig fyrir heimilin að við Íslendingar þurfum að vinna að meðaltali 11 árum lengur fyrir því að eignast okkar íbúð en Evrópubúar. Vaxtastigið hefur verið með þeim hætti, grundvöllur efnahagslífsins hefur verið með þeim hætti að við erum að greiða umtalsvert fé á ári hverju í kostnað fyrir að reyna að halda úti þessum gjaldmiðli. Ég tel að það sé til mikils að vinna (Forseti hringir.) að reyna að komast út úr því með gjaldmiðilssamstarfi og að sömu niðurstöðu hafa fjölmargar Evrópuþjóðir komist.