140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Að meginuppistöðu erum við ekki að veiða úr sameiginlegum stofnum. (ÁsmD: 30% eru sameiginlegir stofnar.) — Já, að meginuppistöðu. 70% eru ekki sameiginlegir stofnar svo að ég skýri mál mitt betur. Þetta tel ég vera ákveðið lykilatriði í því að Íslendingar muni landa viðunandi sérlausnum í sjávarútvegi vegna þess að Evrópusambandið hefur ekki hingað til ásælst auðlindir annarra þjóða og þessi 70% fiskveiðiauðlinda Íslendinga eru stofnar sem eru okkar og við ein höfum veitt úr. Það væri því stílbrot á sjávarútvegsstefnu og stefnu Evrópusambandsins að seilast inn í þá auðlind.

Varðandi makríldeiluna já, það eru sameiginlegir stofnar og mér finnst það til dæmis bara góð spurning: Hvort er betra að leysa þau mál, þegar sameiginlegir stofnar eru annars vegar, með því að vera í Evrópusambandinu eða fyrir utan það? Síðan vil ég líka vekja athygli á því að við erum bara ekkert í deilum við Evrópusambandið um sameiginlega stofna, við höfum í gegnum tíðina og erum í blússandi deilum við Noreg. (Forseti hringir.) Það er vandlifað. Við þurfum bara að reyna að ná sátt um þá eins og í öllu öðru.