140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:43]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði nú ekkert um það í ræðu minni hvort ég vildi styrkja landbúnað eða ekki. Ég tel þó ríkar röksemdir fyrir því að komast að sömu niðurstöðu og Evrópuþjóðir hafa komist að, að styrkja eigi landbúnað. En í þessum aðildarviðræðum hafa fjölmargar spurningar vaknað sem okkur er hollt að glíma við. Við höfum til dæmis mjög ríkulega framleiðslutengda styrki í landbúnaði, við styrkjum lambakjötsframleiðslu, mjólkurframleiðslu. Svo er önnur framleiðsla í landbúnaði sem við styrkjum ekki, bara ekki neitt. Evrópusambandið virðist mér því heilt yfir nálgast þetta öðruvísi, þeir styrkja ekki framleiðslutengt, þeir styrkja bara bændur beint til þess að gera það sem þeim sýnist á jörðum sínum.

Mér finnst það áleitin spurning fyrir Ísland hvort við ættum að taka upp sömu hugsun hér. Mér finnst það málefnalegt að velta því fyrir sér hvort við ættum kannski að hætta að styrkja framleiðslu sem er í mörgum tilvikum óhagkvæm og reyna frekar að opna leiðir fyrir bændur til að fara í aðra hagkvæmari framleiðslu eða þjónustu á jörðum sínum. Ég held að þetta gætum við hugsanlega lært af Evrópusambandinu.

Mér verður tíðrætt um grænmetið, íslenskt grænmeti er mjög mikið tekið og það er bara ferlega gott og samt voru tollar alveg felldir niður, til dæmis á tómötum og gúrku. Það er mjög gaman og athyglisvert og merkilegt að sjá línuritin yfir innlenda framleiðslu eftir að tollar voru felldir niður. Innlend framleiðsla rauk upp, hún rauk upp. Og vegna hvers skyldi það vera? Það getur til dæmis verið út af því að það sé slæmt fyrir landbúnaðinn að búa við ofvernd. Ef það er tollavernd, styrkjavernd og fjarlægðarvernd komi það bara niður á landbúnaðinum. (Forseti hringir.) Þetta þjappaði grænmetisbændum saman og framleiðslan jókst. Gott mál.