140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[15:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu sína og framgöngu alla í því embætti, sérstaklega fyrir að hefja umfjöllun sína hér á því að nefna norðurskautið. Í þeirri þróun sem þar verður á næstu árum mun mikið ráðast um ýmis brýn hagsmunamál okkar Íslendinga. Við erum svo nærri því svæði og munum því verða fyrir svo miklum áhrifum af þeirri þróun sem verður á þessum hluta heimsins sem er nú 1/6 hluti jarðarkringlunnar og er óðum að opnast fyrir bæði umferð og möguleikum manna til að nýta náttúruauðlindir þar. Það felur auðvitað í sér gríðarleg tækifæri og ný verkefni en um leið hættur sem við þarf að bregðast. Auk þess sem loftslagsþróun og almenn þróun á þeim svæðum getur haft umtalsverð áhrif fyrir lífskjör í Norðurhöfum og er til dæmis þegar farin að hafa áhrif á fiskgengd í höfunum í kringum okkur.

Það var mikið fagnaðarefni þegar utanríkisráðherrar landa sem liggja að norðurskautinu náðu samkomulagi um verkaskiptingu í björgunarmálum því að menn þurfa að takast á við gríðarlega mikil og hratt vaxandi verkefni með aukinni umferð skipa. Sannarlega þarf að ná fleiri og stærri áföngum en náðist á ráðherrafundinum í Nuuk.

Fyrirætlanir og hvatningar Norðurskautsráðsins til Alþjóðasiglingastofnunar eru að hluti af siglingareglum á norðurskautinu verði að stærri skemmtiferðaskip þurfi að sigla saman tvö og tvö af öryggisástæðum vegna vaxandi umferðar skemmtiferðaskipa í Norðurhöfum á áður óþekktum hafsvæðum, jafnvel hafsvæðum sem ekki hafa verið mæld. Við þurfum ekki að hugsa lengra aftur en til sjóslyssins við Ítalíu, þegar skipið Costa Concordia strandaði, til að átta okkur á því hvers konar aðstæður geta skapast fyrir skemmtiferðaskip sem lendir í hafnauð eða erfiðleikum í óþekktu og erfiðu umhverfi eins og höfunum norður af okkur og nauðsyn þess að ýtrasta öryggis sé gætt. Þess vegna hefur verið hvatt til þess að skip þar fari tvö og tvö saman til að einhver geti bjargað fólki af öðru fleyinu ef hitt lendir í erfiðleikum.

Ég held að það sé mikilvægt að Norðurskautsráðið haldi áfram að þrýsta á um að þessar og aðrar strangari öryggisreglur um siglingar á norðurslóðum verði innleiddar til að koma í veg fyrir slys og mannskaða, jafnvel umtalsverðan, sem fylgi aukinni ásókn á þau hafsvæði sem eru að opnast í Norðurhöfum.

Það er um leið gríðarlega mikilvægt að samkomulag náist innan Norðurskautsráðsins um að efla mjög björgunarviðbúnað í Norðurhöfum. Það er mikilvægur áfangi að aðildarríkin hafi þar verkaskipti. Aukin umferð kallar auðvitað á aukinn viðbúnað. Við megum vænta þess að æ stærri skip sæki inn á þessi svæði, einkum þegar opnast siglingaleiðir norðaustur um og norðvestur um þar sem tækifæri geta skapast fyrir töluverða vöruflutninga.

Annað praktískt atriði sem er okkur mikilvægt er að unnið verði að því að reglur um olíuvinnslu og flutning á olíu til og frá nýjum vinnslusvæðum í Norðurhöfum séu sem allra bestar. Það er auðvitað ástæða fyrir okkur að huga að öryggismálum miðað við þá miklu hagsmuni sem við höfum af því að ekki verði alvarleg umhverfisslys í höfunum í kringum okkur þar sem við Íslendingar byggjum lífsafkomu okkar á fiskinum í sjónum.

Ég fagna því sérstaklega þeirri miklu áherslu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt á málefni norðurslóða og hvet hann áfram til dáða í þeim efnum.

Þessu tengt og loftslagsbreytingunum höfum við fylgst með breytingum á náttúrunni í höfunum kringum Ísland, m.a. breytingu á gengd fiskstofna. Hingað hafa leitað nýjar tegundir, einkanlega makríll, sem við höfum með réttu veitt í talsverðu magni á undanförnum árum og hefur verið mikilvægur hluti í vexti í efnahagsumsvifum hér á landi. Þetta hefur verið nokkuð umdeilt og verður að teljast brýnasta úrlausnarefni okkar til skamms tíma í alþjóðasamskiptum að leysa úr þeim deilum sem fylgja breyttri fiskgengd vegna loftslagsbreytinga. Við verðum að leysa úr þeim deilum sem við eigum við nágranna okkar með samkomulagi um það hversu mikinn hlut hver og einn skuli fá í þessum makrílstofni. Þó að við eigum auðvitað að standa fast á rétti okkar og sækja fram kröfur okkar eins og fært er verða þau 230 þús. tonn sem við erum að veiða af þessari fisktegund skammgóður vermir ef hér verður ár eftir ár gegndarlaus veiði á stofninum. Þá er einfaldlega hætt við því að stofninn hrynji og allir deiluaðilar sitji eftir með verulega skarðan hlut og hafi fórnað meiri hagsmunum fyrir minni með skammsýni og því að vera ekki tilbúnir til þeirra tilslakana sem nauðsynlegar voru.

Það er mikilvægt fyrir hagsmunaaðila sem í þessu eru, þá sem sækja þennan fisk og þá sem vinna úr honum og selja hann í öllum þeim löndum sem deila þessum stofni, að skynsamleg niðurstaða náist sem taki mið af ólíkum sjónarmiðum, að menn láti ekki milliríkjadeilur og pólitískan æsing stranda það mikilvæga hagsmunamál að nýting á makrílstofninum verði sjálfbær. Um leið verður það auðvitað að segjast að þær kröfur sem aðrir aðilar, einkanlega Evrópusambandið, hafa gert í þessum efnum hafa verið þannig að það er langt því frá að við Íslendingar getum sætt okkur við þær. Við hljótum í ljósi þess mikla magns af æti sem þessi fiskur tekur á Íslandsmiðum að gera verulega kröfu til hlutdeildar í stofninum. Meginhagsmunir okkar eru þeir að þessi stofn verði sjálfbær, hann verði ekki ofveiddur árum saman, og að samningar náist um nýtingu hans.

Þessi deila kann á komandi mánuðum og missirum að hafa nokkur áhrif á samningaviðræður okkar við Evrópusambandið sem hafa gengið hægar en við höfum mörg óskað okkur. Ég bind þó vonir við þær yfirlýsingar sem stækkunarstjóri sambandsins hefur gefið, að það megi takast fyrir næstu áramót að opna alla kaflana í viðræðunum. Ég held að í því efni sé einkanlega mikilvægt að opna þá kafla sem líklegast er að mestar deilur verði um, eða mestu hagsmunirnir felast í, þá ekki síst sjávarútvegskaflann. Það er auðvitað lykilatriði í viðræðum okkar að við Íslendingar tryggjum í samningum það forræði yfir auðlindum okkar sem nauðsynlegt er til að við getum talið að aðildarsamningur sé ákjósanlegur fyrir langtímahagsmuni Íslands.

Það er stórkostlegir ávinningar sem við getum í þeim viðræðum sótt. Við Íslendingar verðum að horfa til þess að nokkuð er sótt að sjálfstæði okkar. Því miður höfum við þurft að leita neyðaraðstoðar erlendra þjóða því að við höfum ekki reynst fær um að vera efnahagslega sjálfstæð og óháð öðrum ríkjum. Við erum í þeirri stöðu að þurfa að leita til annarra þjóða eftir lágmarksviðbúnaði í loftvörnum hér. Við erum sömuleiðis í þeirri stöðu að hafa orðið að setja gjaldeyrishöft um efnahag okkar og banna erlendu fólki að taka það fjármagn sem það á í landi okkar með sér úr landinu. Allt vitnar þetta um fremur veika, þrönga og erfiða stöðu og verði hún viðvarandi, einkanlega gjaldeyrishöftin, er hætt við að hún grafi til langframa mjög undan samkeppnishæfni okkar og lífskjörum almennt. Það er þess vegna brýnna nú en nokkru sinni fyrr, til þess að við getum verið sjálfstæð þjóð, að við fáum leyst úr þeim alvarlegu verkefnum og vandamálum sem við eigum við að glíma með þeim hætti að það geti dugað okkur til framtíðar.

Ég er sammála hæstv. utanríkisráðherra um að það að eiga aðild að evrópska myntsamstarfinu ERM II nokkrum mánuðum eftir að til aðildar kemur er langraunhæfasta leiðin til að vinna okkur út úr þessum vanda.

Um leið og við leggjum áherslu á samningaviðræður við Evrópusambandið er líka mikilvægt að leggja áherslu á norðurskautsmálin eins og ég nefndi áðan og á samstarf við önnur þau ríki sem að skautinu liggja, þ.e. norræna samstarfið sem við höfum lagt mikla áherslu á en ekki síður samstarf við Kanada, enda vaxandi áhugi og vilji til samstarfs af hálfu beggja landa, og við Rússland og þá einkum norðvesturhluta þess.

Við á Norðurlöndum hljótum að horfa til þess að það landamæraleysi og þau auknu samskipti í norðurhluta Evrópu hafa skapað gagnkvæm viðskipti og fjárfestingar á Norðurlöndunum og falið í sér mikla lífskjarasókn fyrir öll ríki Norðurlandanna og svæðin í norðvestur Rússlandi — þar býr svipaður fjöldi og á Norðurlöndunum — og í Eystrasaltslöndunum. Til lengri framtíðar litið er aukið samstarf þessara svæða í austur- og vesturhluta Norður-Evrópu mikilvægur hlekkur í því að efla frjálsa verslun og viðskipti í okkar heimshluta og styrkja lífskjör á svæðunum með auknum gagnkvæmum viðskiptum og fjárfestingum, ekki síst með því að nýta þá möguleika sem á svæðunum eru í orkumálum og þá sérþekkingu á einstökum sviðum hennar sem er að finna í einstökum ríkjum. Ég held að við Íslendingar eigum sannarlega ýmis tækifæri þar.

Ég fagna líka sérstaklega þeirri áherslu sem nú er lögð á orkunýtingu í þróunarsamvinnu okkar Íslendinga og því verkefni sem lýst var í skýrslu ráðherrans um orkunýtingu fyrir svæði þar sem búa 150 milljónir manna í mörgum af fátækustu ríkjum heims. Þar sem við erum lítil þjóð og getum auðvitað ekki lagt óendanlega mikið af mörkum til þróunarsamvinnu held ég að nauðsynlegt sé fyrir okkur að sérhæfa okkur og veita bestu þekkingu og reynslu sem við höfum fram að færa. Við getum þannig miðlað af reynslu okkar og þekkingu í orkugeiranum og sjávarútveginum til að (Forseti hringir.) stuðla að því að hjálpa öðrum til sjálfshjálpar.