140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[16:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og vil hrósa hv. þingmanni sérstaklega fyrir seinni hluta hennar því að þar virtist örla á ákveðinni víðsýni þegar hv. þingmaður fór að tala um Kanada og möguleikann á samstarfi í þá áttina og eins varðandi Rússland. Við vorum með forsætisráðherra Kína á landinu í síðustu viku þar sem aldeilis voru jákvæðar fréttir, sumar hverjar sem fylgdu þeirri heimsókn, um fjárfestingu upp á 127 milljarða í atvinnuuppbyggingu og vilja til frekara samstarfs við Kína.

Við höfum fylgst með umræðunum í Evrópu frá því að umsóknin var lögð inn, við höfum horft upp á efnahagsvandann í Suður-Evrópu, Grikklandi og vanda evrunnar. Núna eru fréttir í dag, bara svo dæmi sé tekið, um að framkvæmdastjórnin sé að tala um að hún vilji tæplega 7% aukningu frá aðildarríkjum inn til framkvæmdastjórnarinnar fyrir næsta ár. Sarkozy, forseti Frakklands, fjallar um að hann sé tilbúinn að láta nýjan sáttmála í þjóðaratkvæðagreiðslu í þeirri örvæntingu að ná völdum. Slíkt mundi þýða endalok evrunnar samkvæmt því sem Angela Merkel segir sjálf. Svona mætti áfram telja. Skuldavandinn og evruvandinn er á engan hátt leystur og atvinnuleysi í Suður-Evrópu er í hæstu hæðum.

Hv. þingmaður talaði hér af ákveðinni víðsýni í utanríkismálum og því langar mig að spyrja hann: Hvernig metur hv. þingmaður stöðuna nú versus það þegar sótt var um aðild á sínum tíma? Finnst hv. þingmanni Evrópusambandið jafnspennandi kostur fyrir Íslendinga núna og það var fyrir þremur árum? Margir hafa talað um að þetta hafi breyst töluvert. Mig langar að vita hver sýn hv. þingmanns er á þær breytingar sem orðið hafa síðustu þrjú árin á innviðum Evrópusambandsins.