140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[16:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra segir að það sé einstakt í aðildarviðræðum ríkis að þetta sé svo opið og gegnsætt og allt uppi á borðum, svo ég skreyti þetta nú með mínu orðalagi. En þá verð ég líka að segja við hæstv. utanríkisráðherra að það er ekki bara það sem er einstakt við þessar viðræður. Venjulega eru ríki að sækja um í Evrópusambandinu vegna þess að þau vilja vera þar en það er frekar einstakt hér að því er ekki til að dreifa, heldur eru menn að kíkja í einhverja pakka. Það er einmitt það með gjaldmiðilsmálin, pakkann og skjólin, það er kannski það sem ég vil ítreka að hæstv. ráðherra skýri einhvern tímann síðar í umræðunni. Er það ekki örugglega réttur skilningur hjá mér að skjólið meinta og margumrædda, það verður ekkert um slíkt skjól að ræða vegna þess að það verður að vera búið að afnema gjaldeyrishöftin fyrir aðild, því það er eitt af skilyrðunum? Ég átta mig ekki alveg á því í hverju þetta skjól felst. Það er ekkert samið um evruaðild eða aðild að ERM II í aðildarviðræðunum, heldur gerist það eftir að aðild hefur verið samþykkt. Ég átta mig ekki alveg á því þegar hæstv. ráðherra ræðir um þetta skjól, hvað í því felst.

Mér finnst þetta vera mjög mikilvægt, vegna þess að nú finnst mér vera síðasta haldreipið hjá Samfylkingunni í Evrópusambandsaðildinni — það eina sem stendur eftir er gjaldmiðilsspurningin. Ég er ekki alveg að sjá hvernig þetta meinta skjól á að virka. Þessi vinnuhópur sem boðaður er í skýrslunni á bara að ræða um einhverja möguleika hingað og þangað. Ég held að allir sjái að það kemur ekki einhver stórkostleg (Forseti hringir.) breyting á verklagi Evrópusambandsins inn í það. Ég geri mér grein fyrir að hæstv. ráðherra getur ekki svarað mér núna en (Forseti hringir.) vænti þess að hann geri það síðar í umræðunni.