140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[16:56]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson kom inn á að ég sem ráðherra gerði varnarlínur Bændasamtakanna að mínum grunnforsendum og grunnkröfum í viðræðum við Evrópusambandið. Það var öllum ljóst. Ég gerði grein fyrir því á þingi, ég gerði grein fyrir því meðal Bændasamtakanna og einnig í ríkisstjórn, fór með það skriflegt inn í ríkisstjórn að mig minnir.

Það er líka kveðið á um það í greinargerð með þingsályktunartillögunni hverjir meginhagsmunir Íslendinga í viðræðum við Evrópusambandið eru, m.a. varðandi landbúnað, fæðuöryggi, matvælaöryggi, dreifða búsetu í landinu og mikilvægu hlutverki landbúnaðarins í þeim efnum.

Þess vegna kemur mér á óvart að heyra það og ég spyr hv. þingmann af því að hann fylgist líka vel með innan Bændasamtakanna sem ekki hefur verið haft mikið samráð við, eftir því sem kom fram í máli þingmannsins, að í drögum að samningsafstöðu sem verið er að móta væntanlega af hálfu utanríkisráðuneytisins í köflunum sem lúta að utanríkisviðskiptum, köflum 29 og 30, séu þessi grunnatriði ekki sett fram sem samningsmarkmið, eins og að viðhalda tollvernd, eins og að vera með innflutningsbann á hráu kjöti, hráu ófrosnu kjöti og lifandi dýrum. Ef við stillum ekki upp samningskröfunum, hvernig eigum við þá að ná einhverjum viðhlítandi samningum? Eigum við bara að leggjast flatir fyrir fram fyrir þeim kröfum sem (Forseti hringir.) Evrópusambandið gerir?