140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:00]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg upplýst þá afstöðu mína og ítreka það sem ég sagði hér að kröfur Íslendinga í þessum viðræðum varðandi landbúnaðinn ættu að minnsta kosti að vera þær sem ég tilgreindi hér og hv. þingmaður minntist einnig á kröfur Bændasamtakanna.

Ég viðurkenni hins vegar að það var mikill þrýstingur á mig, ekki endilega af hálfu utanríkisráðherra en af hálfu annarra ráðherra, að gefa fyrir fram eftir í þessum efnum og að það mundi ekkert þýða að halda fram þessum kröfum því að Evrópusambandið mundi aldrei samþykkja þær. Þannig samningatækni kann ég ekki fyrir utan það að ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt að halda þessum kröfum fram og þess vegna endurtek ég spurningu hv. þingmanns sem hann spurði hér: Hverjar verða kröfurnar af hálfu Íslendinga og samningsafstaða í þeim málaflokkum sem hér um ræðir í þessum viðræðum? Munu þær koma til umræðu á Alþingi ef þær víkja mikið frá því sem greint er frá meðal annars sem meginhagsmunum í greinargerð með þingsályktunartillögunni um umsókn að Evrópusambandinu? Þetta er gríðarlega mikið mál hvort við leggjumst fyrir fram flatir eða ekki.