140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:31]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Þegar hv. þingmanni var vikið úr embætti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði hann við fjölmiðla að það væri hreint og klárt vegna kröfu Evrópusambandsins og það lægi ljóst fyrir að það væri vegna þess að ekki væri vilji til þess að gefa eftir grundvallarhagsmuni Íslands vegna viðræðna við Evrópusambandið.

Sama kvöld í sjónvarpsfréttum kom formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, og sagði eitthvað á þá leið, aðspurður að því hvort hann mundi gefa eftir hagsmuni Íslands í veigamiklum málum og hvort þetta tengdist á einhvern hátt Evrópusambandsviðræðunum, að þetta væri ekki með nokkrum hætti tengt og það yrði engin stefnubreyting í veigamiklum málum við það að hann kæmi inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

Nú erum við að fá upplýsingar um það hjá hv. þingmanni að samningamanni Íslands í makríldeilunni hafi verið vikið úr embætti eða sagt upp um leið og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og hæstv. ráðherra, kom inn í ráðuneytið. Það styður það auðvitað sem margir hafa haldið fram að hann mundi koma inn í ráðuneytið með það að markmiði að gefa eftir í grundvallaratriðum.

Það sem mig langar þá að spyrja hv. þingmann að er hvort hann sé ekki sammála mér í því að að þessu leyti hafi arftaki hans gefið eftir í grundvallaratriðum hvað þetta snertir og hvað búi að baki því að formaður Vinstri grænna skuli með þessum hætti gefa eftir í grundvallarmálum bæði hvað varðar sjávarútveg og landbúnað, eins og komið hefur fram hér í umræðum fyrr í dag.