140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[17:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Hv. þingmaður hefur skipt um skoðun varðandi framgang aðildarumsóknarinnar og telur að umsóknin sé komin í öngstræti. Skýringin sem hún gefur eru skoðanakannanir.

Nú vil ég ekki sneiða að hv. þingmanni en má ég minna hana á að hún hefur nýstofnað flokk sem fékk í fyrstu skoðanakönnun 22% en í annarri skoðanakönnun fékk hann 8%. Megum við draga af því þá ályktun að Samstaða sé komin í öngstræti? Mér kemur það ekki til hugar, síður en svo, þvert á móti hefur hún ýmislegt fram að færa þó að ég sjái mér ekki fært af tæknilegum ástæðum að kjósa hana. Ég held að hv. þingmaður geti ekki hrapað að ályktunum af þessu tagi.

Ég gæti bent hv. þingmanni á hvernig þróun skoðanakannana hefur verið í ýmsum löndum sem eru nú í Evrópusambandinu og sýnt henni fram á að meira að segja tiltölulega skömmu fyrir lyktir aðildarviðræðna voru skoðanakannanir mjög neikvæðar. Í dag þegar þessi lönd eru gengin inn, þ.e. sum þeirra sem gengu síðast í Evrópusambandið, hefur álit manna á ESB gjörbreyst vegna þess að þeir hafa fundið á eigin skinni að aðildin gerði gott. Ég bendi á Möltu sem dæmi þar sem er 80% stuðningur við ESB núna en oft og tíðum var minni hluti með. Menn þurfa ekki að undrast stöðuna, eins og hv. þingmaður sagði sjálf, út af atburðum sem hafa hent okkur á þessari vegferð eins og Icesave. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að Icesave hafði verulega afgerandi neikvæð áhrif á fylgið á sínum tíma. En ég tek undir með þeim sem hafa sagt hér í dag að það verður fyrst þegar við sjáum þennan samning sem menn geta tekið afstöðu.

Ég bendi hv. þingmanni á að hún stofnaði stjórnmálaflokk fyrir tveimur mánuðum og skrifaði þá með eigin hendi í stofnsáttmála hans allt aðra skoðun en hún fór með hér (Forseti hringir.) þannig að skjótt skipast veður í lofti hjá þeim góða flokki.