140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:04]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi áþreifanlegar röksemdir fyrir því að við séum komin í aðlögunarferli. Ég get bara vísað til þeirra krafna sem settar voru fram af hálfu Evrópusambandsins um svokallaða opnunarskilmála fyrir samningum um landbúnað þar sem ég hafnaði því að fara fyrir fram í aðlögun með íslenskan landbúnað áður en búið væri greiða atkvæði um það hvort við ætluðum að samþykkja samninginn eða ekki — ég hafnaði fyrirframaðlögun. Það varð til þess að settir voru þessir opnunarskilmálar á samninga um íslenskan landbúnað og núna er krafist aðlögunaráætlunar þar.

Ef við lítum á bls. 35 í þessari skýrslu er í 2. málsgrein, um IPA-styrkina, gert er ráð fyrir að taka á móti 12 milljónum evra í IPA-styrkjum og gera landsáætlun árin 2011, 2012 og 2013. IPA-styrkirnir verða veittir til að undirbúa þátttöku í stoðkerfissjóðum árið 2012 og til uppbyggingar stofnana árið 2013. Þessi verkefni geta ekki farið fram nema að undangenginni lagasetningu sem er þvert á það sem er fullyrt að stefna íslenskra stjórnvalda í samningaferlinu sé.

Hvað var verið að gera í morgun? Jú, það var verið að taka úr utanríkismálanefnd heimild til að taka við þessum IPA-styrkjum sem beinlínis er ætlað til þess að aðlaga íslenska stoðkerfið og uppbyggingu stofnana til að taka að sér verkefni og stjórnsýslu í takt við kröfur Evrópusambandsins.

Við erum því alls staðar komin að því að ekki verður haldið áfram nema að fara í (Forseti hringir.) beina aðlögun. Það vil ég ekki en ég get fallist á það ef það er vilji þingsins að afturkalla (Forseti hringir.) eða stöðva umsóknina og fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda skuli áfram þessari vegferð (Forseti hringir.) eða hætta henni. Ég er reyndar þeirrar skoðunar.