140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:07]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé miklu heldur réttur þjóðarinnar að ákveða hvort við hættum þessu umsóknarferli (JBjarn: Eða Alþingis …) en Alþingis.

Varðandi aðlögunarferlið er ég sammála hv. þingmanni um að við séum að hefja aðlögunarferli ef við samþykkjum IPA-styrkina, sem við höfum reyndar ekki gert enn þá. Hvað varðar landbúnaðarskilyrði framkvæmdastjórnar ESB skildist mér á forustumönnum ríkisstjórnarinnar að þetta væri bara spurning um einhverja áætlun um hvernig ætti að aðlaga landbúnaðarkerfið. Við höfum því fengið tvíbent skilaboð frá ríkisstjórninni því að hv. þm. Jón Bjarnason sagði okkur að um væri að ræða kröfu um aðlögun. Ég hef bara staðið og beðið eftir að sjá einhver merki um að annar aðilinn hefði rétt fyrir sér og hinn rangt.

Það er kannski mitt vandamál að ég beið eftir því að sjá það skjalfest hjá hæstv. utanríkisráðherra að umsóknarferlið mundi tefjast um ár áður en ég tók þá ákvörðun að réttast væri að setja umsóknarferlið í þjóðaratkvæðagreiðslu og leyfa þjóðinni að ákveða hvort ætti að halda því áfram.