140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt skoðanakönnunum bendir margt til þess að þjóðin vilji ekki ljúka aðildarviðræðum. Kannanir sýna það sitt á hvað, en fleiri kannanir en færri hafa sýnt að þjóðin vill draga Evrópusambandsumsóknina til baka ef teknar eru saman kannanir sem gerðar hafa verið síðasta árið.

Varðandi þá umræðu um hvað sé í pakkanum er það mjög augljóst því að það er sellófan utan um pakkann og við sjáum öll hvað er í honum. Það er kannski þess vegna sem þjóðin er að verða andsnúnari Evrópusambandsaðild.

Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni. Ég spurði hv. þingmann: Hvað ætlar Samfylkingin að gera þegar sá dagur rennur upp og sú staðreynd verður ljós að við munum ekki ganga í Evrópusambandið? Meiri hluti þjóðarinnar vill ekki ganga í Evrópusambandið. Meiri hluti fyrirtækja vill ekki ganga í Evrópusambandið, til að mynda sýnir nýleg könnun Samtaka iðnaðarins það. Þar hefur orðið algjör stefnubreyting.

Þá langar mig að vita: Hefur Samfylkingin einhverja aðra lausn en Evrópusambandsaðild? Það er gríðarlega mikilvægt og hefur verið kallað eftir því í umræðunni í dag að förum við að tileinka okkur víðsýnni utanríkisstefnu og á fleiri sviðum. Ég benti til að mynda á samskiptin við Kína og fjárfestingar sem komið hafa þaðan og fleira í þeim dúr. Hvað ætlar Samfylkingin að gera þegar þetta verður ljóst?

Hv. þingmanni var tíðrætt í ræðu sinni um að þjóðin ætti skilið samning og fleira í þeim dúr. Treystir hv. þm. Magnús Orri Schram þjóðinni ekki til að taka ákvörðun um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þessum viðræðum skuli haldið áfram? (Forseti hringir.) Þetta eru tvær einfaldar, stuttar spurningar (Forseti hringir.) sem ég vil fá svör við.