140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:30]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að svara því sem fram kom í fyrra andsvari hv. þingmanns um fjárfestingar erlendra aðila.

Skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra um beina erlenda fjárfestingu dregur það skýrt fram að einn helsti þröskuldurinn sem er í vegi fyrir fjárfestingum erlendra aðila hingað til lands er myntin og það ójafnvægi sem felst í því (ÁsmD: Skýrsla Samfylkingarinnar …) að hafa hina íslensku krónu. Ég vil biðja hv. þingmann að bíða rólegan. Þeir sem hingað koma og vilja fara í erlenda fjárfestingu hér á landi, stofna oftar en ekki fyrirtæki sem starfa í alþjóðlegu myntkerfi. Við sjáum að öll öflugustu útflutningsfyrirtækin okkar, hvort sem það er í fiski, raforku eða ferðaþjónustu, gera upp í erlendum myntum (ÁsmD: Svaraðu spurningunni.) vegna þess að þau vilja ekki taka þátt í hinu íslenska hagkerfi með hinni íslensku krónu. (ÁsmD: Einföld spurning) Ég legg áherslu á það í þessu sambandi.

Hvað mun Samfylkingin gera ef þjóðin segir nei við aðildarsamningi að ESB? (Gripið fram í.) Ég á ekki í nokkrum erfiðleikum með að svara því (Gripið fram í.) vegna þess að ég er jafnaðarmaður og það verður alltaf eftirspurn meðal hinnar íslensku þjóðar eftir nútímalegum, alþjóðasinnuðum jafnaðarmannaflokki.

Hv. þingmaður segist tilheyra flokki jafnaðarmanna, hins vegar er flokkur hans hvorki nútímasinnaður né alþjóðlegur og það er munurinn á flokkunum okkar. Þess vegna verður alltaf eftirspurn eftir Samfylkingunni meðal kjósenda hér á landi, flokki sem nær að gæta að jafnvægis á milli velferðarsamfélags og atvinnulífs. (ÁsmD: Treystirðu þjóðinni til að kjósa?) Því segi ég: Það verður alltaf pláss fyrir Samfylkinguna í litrófi íslenskra stjórnmála vegna þess að það er alltaf hægt að horfa til þess að eiga gott samstarf við hið alþjóða hagkerfi, hvort sem þjóðin gengur í Evrópusambandið eða ekki.

Hins vegar er það alveg ljóst að taki þjóðin ákvörðun um að ganga í Evrópusambandið mun hún losna við hærri vexti, við hina íslensku krónu, við verðtrygginguna (Gripið fram í: Rangt.) og hér verður hægt að (Gripið fram í: Amen.) byggja upp öflugt alþjóðlegt atvinnulíf, til dæmis á vettvangi hugverka, skapandi greina o.s.frv.