140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:34]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið sem og félaga hans hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni.

Ég er hjartanlega sammála þeirri nálgun sem þingmaðurinn leggur upp með hér að mikilvægt er fyrir okkur að styrkja útflutningsstarfsemi vegna þess að við þurfum að færa verðmætið hingað inn til lands. Þar á meðal eigum við að horfa til innlendra orkugjafa. Vil ég í því sambandi minna á þingsályktunartillögu sem ég hef nýlega lagt fram um að við tryggjum að álögur hins opinbera á innlenda orkugjafa hækki ekki í tiltekinn tíma til að gefa fólki vissu fyrir því að það er betri valkostur að kaupa innlendan orkugjafa en aðkeypt bensín eða olíu.

Vegna þess að við teljum báðir mikilvægt að styðja við innlend fyrirtæki sem geta skapað verðmæti sem hægt er að selja erlendis eða minnka innflutning vil ég benda honum á að mörg af efnilegustu fyrirtækjum okkur sem eru í hátækni eða þjónustugeira hafa því miður gefið það skýrt út að framtíð þeirra sé ekki innan hinnar íslensku krónu í hinu íslenska hagkerfi. Koma þurfi til breytinga á ytri aðbúnaði peningamála ef þau eigi að geta starfað hér áfram.

Vissulega munum við áfram geta haft fyrirtæki í raforkuframleiðslu. Við munum hafa verksmiðjur í hrávöruframleiðslu. Við munum hafa öflugan sjávarútveg og við munum geta byggt upp ferðaþjónustu. Hins vegar mun þessum geirum atvinnulífsins ekki takast að skapa öll þau störf sem við þurfum að búa til á næstu árum, vel launuð, spennandi og áhugaverð störf fyrir unga og háskólamenntaða fólkið okkar sem sækist eftir áhugaverðu starfi til frambúðar þar sem það getur byggt upp sína fjölskyldu og sest að til langtíma. Við náum því ekki ef við getum ekki skapað fyrirtækjum eins og Marel, Össuri og Actavis aðbúnað og umhverfi til að þau geti dafnað. Annars eigum við á hættu að missa þau úr landi. Það tel ég vera brýnasta hagsmunamálið eins og sakir standa í atvinnumálum okkar.