140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki fara þau til Írlands, þar er evra, þar er 14,5% atvinnuleysi. Ég var þar fyrir nokkrum dögum. Þar var það mál manna að á næstu tveimur til fimm árum muni ekkert breytast þar. Þar muni engin fjárfesting koma inn þrátt fyrir að þeir hafi evru og stöðugleika og atvinnuleysi muni ekkert minnka. Þar er stöðugur samdráttur. Ástæðan er einfaldlega sú að þeir geta ekki nýtt þær náttúruauðlindir og auðlindir sem við höfum til að framleiða sig út úr þeirri kreppu sem hér er og er í allri Evrópu.

Þess vegna er það óskiljanlegt þegar menn koma hingað og fjalla um lægri vexti og stöðugleika og ég veit ekki hvað, há laun fólks, þegar einmitt hið gagnstæða er að gerast í allri sunnanverðri Evrópu og á jaðarsvæðum eins og til dæmis Írlandi, sem er nú gott dæmi til að bera saman við Ísland. Hann er óskiljanlegur sá málflutningur sem þeir sem aðhyllast evruna og Evrópusambandið hafa haldið fram blint, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams.

Hér á landi er okkur sagt og ríkisstjórnin og stjórnarliðar hreyki sér af því að erlendir aðilar standi í röðum að koma hér inn til að fjárfesta og það sé aðallega stjórnarandstöðunni að kenna að hlutirnir gangi ekki nógu hratt fyrir sig. Hvað með hina kínversku fjárfestingu sem er að koma inn upp á 127 milljarða? Hún er ekki á leiðinni til Írlands. Við getum nefnt, og ég veit að hv. þingmaður er sammála mér í því, verkefni eins og Allir vinna og sambærilega hugmyndafræði í kvikmynda- og tónlistargeiranum — og það var nú að frumkvæði Framsóknarflokksins svo að ég komi því að af því að hann er nútímalegur og framúrstefnulegur flokkur sem hugsar um alla atvinnugeira lífsins, ekki bara sjávarútveg og landbúnað.

Og hvað með það að í sjávarútveginum vinna 5–7 þúsund manns en í sjávarklasanum eru 35 þúsund manns? Þar er einmitt þessi hátækniiðnaður, spennandi störf, vel greidd störf, þar sem verið er að færa leiðinlega vinnu, handfæravinnu, yfir í hátækniiðnað í geira sem við þekkjum út og inn. Hvað með það? Eigum við ekki að nýta það frekar en horfa blint inn í Evrópusambandið með lokuð augun?