140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:39]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég horfi ekki blint inn í Evrópusambandið. Ég tel hins vegar að svo margir kostir geti legið til grundvallar aðild okkar að Evrópusambandinu að við eigum að skoða þann möguleika alvarlega og við eigum ekki að draga til baka þessa aðildarumsókn og við eigum að leyfa þjóðinni að taka upplýsta ákvörðun um hvort hún vilji ganga inn í Evrópusambandið. Hún mun gera það með opin augu og þar mun mitt atkvæði telja jafnþungt og atkvæði hv. þingmanns. Þar stöndum við öll jöfn og þjóðin á að taka þessa ákvörðun.

Ef staða Íra og Íslendinga er borin saman er alveg ljóst að hin íslenska leið, að skrifa skuldir bankakerfisins algjörlega frá og setja þær yfir á kröfuhafa hinna stóru banka sem hér störfuðu, er stóri munurinn á stöðunni á Írlandi og Íslandi. Írar tóku hins vegar til sín allt þetta bankakerfi og ríkisvæddu skuldirnar að miklu leyti. Það er kostur neyðarlaganna sem við settum á sínum tíma. Það var skynsamleg ákvörðun í þeirri stöðu sem við vorum í og Íslendingar gátu farið.

Við megum hins vegar ekki gleyma því, eins og ég kom að í ræðu minni, að þegar menn tala um kosti þess að hafa sína eigin mynt, vegna þess að hægt er að laga hana að stöðu atvinnuveganna, erum við alltaf líka um leið að tala um að gengisfella laun hins íslenska almennings og við erum ekki bara að gera það, við erum líka að auka skuldir almennings vegna þess að verðbólgan og verðtryggingin eru nátengd stöðu íslensku krónunnar gagnvart hinni erlendu mynt.

Maður spyr sig líka: Hvernig stendur á því að öll þessi öflugu fyrirtæki sem við eigum, öll okkar verðmætustu og stærstu fyrirtæki, gera upp í erlendum myntum? Það er vegna þess að þau vilja komast í fjármagn á hagstæðari vöxtum. Ég segi: Eigum við ekki að leyfa almenningi að njóta sömu kjara og þessi stóru og öflugu fyrirtæki í sjávarútvegi, í raforkuframleiðslu, í ferðaþjónustu? Jú, þess vegna tel ég skynsamlegt að halda áfram aðildarviðræðum við ESB og vonandi að taka upp erlenda mynt.